Starfsmannaþörf
Allar ákvarðanir um ráðningu nýrra starfsmanna skulu vera vel ígrundaðar og rökstuddar í samræmi við langtímaáætlanir um starfsmannaþörf. Mikilvægt er að það liggi ljóst fyrir áður en auglýst er hvert sé markmiðið með starfinu. Liggja skal fyrir starfslýsing fyrir öll störf sem ráðið er í. Þegar starfsmaður lætur af störfum skal starfið endurskoðað og jafnframt metið hvort ráða eigi í það að nýju.
Starfsauglýsingar
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum telur mikilvægt að þeirri meginreglu sé fylgt að laus störf séu auglýst. Heimildir til að víkja frá auglýsingaskyldu skulu einungis nýttar þegar sérstakar ástæður gefa tilefni til. Árnastofnun leggur metnað sinn í að standa vel að gerð starfsauglýsinga og að gæta þar jafnréttissjónarmið
Ráðningar
Þegar auglýst eru störf skal gæta jafnræðis milli umsækjenda, samræmis í meðferð umsókna og þess að umsækjendum sé ekki mismunað vegna kynferðis eða annars. Ákvörðun um ráðningu í starf skal vera rökstudd og byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Í meðferð umsókna um störf sem krefjast hæfnisdóms skal fylgja hliðstæðum reglum og gert er við ráðningu kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands, sbr. III. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, með síðari breytingum.
Móttaka og fræðsla nýrra starfsmanna
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum leggur áherslu á að taka vel á móti nýjum starfsmönnum og að þeim líði vel í starfi frá byrjun. Nýir starfsmenn skulu fræddir bæði um almenna starfsemi stofnunarinnar og þann hluta starfseminnar sem lýtur sérstaklega að starfssviði þeirra og um réttindi sín og skyldur. Stofustjóri er ábyrgur fyrir því að nýjum starfsmanni sé veitt slík fræðsla. Stjórnsýslusvið veitir leiðbeiningar í því efni.
Starfsþróun
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er það kappsmál að veita öllum starfsmönnum trausta og góða starfsþjálfun, viðhalda henni og auka hana með endur- og símenntun. Vegna þeirrar sérstöðu Árnastofnunar að vera í senn íslensk vísinda- og menntastofnun og hluti af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi er mikilvægt að starfsmönnum sé gefinn kostur á að sækja ráðstefnur og fara í kynnisferðir og rækja þannig samstarf við innlend og erlend starfssystkin eftir því sem kostur er. Sömu reglur gilda um greiðslu ferðakostnaðar og hjá Háskóla Íslands. Ákvarðanir um veitingu rannsóknar- og námsleyfa skulu einnig vera með sama hætti og tíðkast hjá Háskólanum.
Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að síbreytilegum kröfum sem starfið gerir til þeirra, svo sem vegna faglegrar og tæknilegrar þróunar, og vera reiðubúnir að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna. Árnastofnun leitast við að verða við óskum starfsmanna um flutning á milli starfa eftir því sem við á.
Starfsmannasamtöl
Reglubundin starfsmannasamtöl eru vettvangur samræðu milli starfsmanna og stjórnenda og skulu fara fram a.m.k. einu sinni á ári. Tilgangur samtalanna er að stuðla að velferð starfsmanna, gæðastjórnun og bættum starfsárangri sem og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Samtölunum er ætlað að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum að ná settum markmiðum, skerpa vitundina um þessi markmið og þá ábyrgð sem þeim fylgir og skapa gagnkvæmt traust. Mikilvægt er að starfsmannasamtöl séu vandlega undirbúin, þeim sé fylgt eftir, úrræði séu skipulögð og trúnaðar sé gætt á öllum stigum.
Starfslok
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum vill koma til móts við óskir starfsfólks um starfslok, t.d. með því að breyta starfshlutfalli eða starfsskyldum síðustu misserin í starfi. Fastráðnu starfsfólki gefst kostur á starfslokaviðtali þegar það lætur af starfi. Viðtalið gefur Árnastofnun tækifæri til að draga lærdóm af ábendingum starfsfólks um það sem betur má fara í starfinu. Hvert svið fyrir sig sér um framkvæmd starfslokaviðtala og varðveislu gagna.
Árnastofnun kappkostar að búa fólki vinnuaðstöðu á stofnuninni eftir formleg starfslok þannig að þekking þeirra og reynsla nýtist áfram.