Skip to main content

Pappírsslóð rakin. Efniviður íslenskra bóka og handrita frá 16. og 17. öld − frá pappírsframleiðslu til bókasafna

Pappírsslóð rakin

Verkefnið fellur bæði undir bóksögu og það svið handritafræði sem kallast efnisleg fílólógía (material philology), þar sem augum er ekki beint að textum handrita eða bóka sérstaklega heldur að gripunum sjálfum út frá ýmsum sjónarhornum. Rannsóknin fólst í stórum dráttum í því að rannsaka umferð pappírs á 16. og 17. öld, pappírs í íslenskum handritum og bókum prentuðum á Íslandi, sem sumar enduðu í erlendum bókasöfnum. Greiningar og lýsingar á vatnsmerkjum (framleiðslumerki í pappír) og útbreiðsla pappírs og prentaðra bóka voru undirstaða rannsóknarinnar. Hvernig barst pappír til landsins og hvaðan? Hvernig dreifðist hann innanlands? Var munur á því hvernig opinberir aðilar öfluðu sér pappírs og notuðu hann og því hvernig einkaaðilar fóru að? Af hvaða ástæðum söfnuðu erlendir fræðimenn íslenskum bókum? Hvernig komust þeir yfir bækurnar? Silvia Hufnagel og Vasarė Rastonis unnu að rannsókninni undir stjórn Þórunnar Sigurðardóttur. Rannsóknin var unnin í samstarfi við handritadeild Landsbókasafns Íslands, Árnasafn í Kaupmannahöfn, Háskólabókasafnið í Köln og Tækniháskólann í Köln. Styrkurinn var til þriggja ára og á því tímabili voru birtar greinar í fræðiritum, staðið fyrir ráðstefnu og gefið út greinasafn um efnið.