Skip to main content

Nýleg aðkomuorð í Norðurlandamálum

Verkefnið er norræn samanburðarrannsókn á nýlegum aðkomuorðum í sjö málum og málsamfélögum á Norðurlöndum – dönsku, finnlandssænsku, finnsku, færeysku, íslensku, norsku,  og sænsku – sem stofnað var til að frumkvæði Norræns málráðs. Viðfangsefni rannsóknarinnar eru orð úr erlendum málum – aðkomuorð (importord) – sem borist hafa í Norðurlandamál eftir síðari heimstyrjöld. Umfang slíkra orða í dagblaðatextum var rannsakað svo og aðlögun þeirra að tal- og ritmáli, athugað var hvort og að hvaða marki nýyrði sem svöruðu til erlendra hugtaka eða aðkomuorða (avløysarord) væru notuð í málunum og hvert væri viðhorf málnotenda til aðkomuorða og erlendra máláhrifa. Í rannsóknarhópurinn eru fræðimenn og háskólastúdentar af öllum Norðurlöndum. Þátttakendur nálguðust viðfangsefnið frá ólíkum hliðum og beittu margvíslegum aðferðum við rannsóknirnar – greiningu á textum, leit í gagnasöfnum, spurningakönnunum og viðtölum við einstaklinga og hópa. Aðferðir og vinnubrögð voru samræmd á milli málsamfélaga eftir því sem kostur var til þess að samanburður á niðurstöðum væri sem greiðastur og áreiðanlegastur.

Rannsóknarniðurstöður voru birtar í sérstakri ritröð, Moderne importord i språka i Norden (útgefandi Novus í Osló). Þær hafa einnig verið kynntar í fyrirlestrum og greinum, þ. á m. á ráðstefnu Nordmålforum  "Nordiske språkklima under engelsk press" á Schæffergården í desember 2005. Árið 2010 kom út þemahefti um verkefnið í The International Journal of the Sociology of Language (ritstj. Tore Kristiansen & Helge Sandøy). Þrjár lokaritgerðir við Háskóla Íslands hafa byggt á gögnum úr rannsókninni.

Fimm íslenskir þátttakendur eru í rannsóknarhópnum, tveir af orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og þrír frá Háskóla Íslands, þ. á m. tveir stúdentar í MA-námi. Auk þess hafa fleiri komið að vinnu við einstaka þætti rannsóknarinnar. Verkefnið naut styrkja úr ýmsum norrænum sjóðum og íslenski hlutinn var einnig styrktur af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

 

Verkefnisstjóri

Helge Sandøy, Háskólanum í Bergen

Íslenskir meðlimir rannsóknarhópsins

Ásta Svavarsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Guðrún Kvaran, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Halldóra Björt Ewen, Háskóla Íslands
Hanna Óladóttir, Háskóla Íslands
Kristján Árnason, Háskóla Íslands

Aðrir þátttakendur og aðstoðarfólk

Ari Páll Kristinsson, Íslensk málstöð / Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Elín Bára Magnúsdóttir, Háskólanum í Bergen
Elva Dögg Melsteð, Háskóla Íslands
Sigrún Steingrímsdóttir, Háskóla Íslands