Charlotte E. Christiansen er nýdoktor og gestafræðimaður. Verkefni hennar nefnist á ensku „An anthropology of literature and creativity in Iceland – enchanted landscapes“ eða „Mannfræði bókmennta og sköpunar á Íslandi – töfrandi landslag“ og nær yfir tveggja ára tímabil frá júní 2023 til maí 2025.
Meginmarkmið Charlotte með verkefninu er að rannsaka hversdagshætti íslenskra samtímarithöfunda. Verður það gert með þjóðfræðilegum aðferðum eins og viðtölum, þátttakendaathugun og skjalarannsóknum. Breiður hópur höfunda kemur við sögu og spannar hann fleiri en eina kynslóð höfunda og margar tegundir bókmennta. Rannsóknarspurningar snúast einkum um tengsl milli framleiðslu bókmenntatexta, sagnabókmennta og landslags á Íslandi. Með því að nota kenningar úr fyrirbærafræði og ímyndunarkenningar er leitast við í verkefninu að varpa ljósi á samspil hins „raunverulega“ og ímyndaða heims sem mynda mannlega tilveru.
Nokkuð hefur verið rannsakað og birt er varðar skáldskaparskrif en í fáum rannsóknum hafa þau verið skoðuð frá þjóðfræðilegu sjónarhorni. Í mannfræði hafa flestar rannsóknir á bókmenntum beinst að því hvernig þjóðfræðingur getur fengið innblástur frá skáldsagnahöfundum eða hvernig þeir geta lært um menningu með því að lesa bókmenntir hennar. Þetta verkefni stuðlar að nýrri nálgun þar sem bókmenntir eru rannsakaðar sem sérsvið. Markmiðið með þessari nálgun er að skoða hvernig fólk í mismunandi félags- og menningarlegu samhengi samtímans notar bókmenntatexta á mismunandi hátt til að skapa merkingu og til að bregðast við umheiminum.