Skip to main content

Málið.is

Markmið Málsins er að auðvelda rafræna leit að gögnum og fræðslu um íslenskt mál og málnotkun, með einföldum og samræmdum vefaðgangi.

Vefgáttin dregur fram allar tiltækar upplýsingar um það orð sem leitað er að hverju sinni, úr gagnasöfnum um íslenskt mál og málnotkun sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og samstarfsaðilar hennar hafa yfir að ráða. Þrátt fyrir mismunandi vefföng og viðmót gagnasafnanna hafa notendur Málsins auðveldan og skjótan aðgang að öllu efninu með einfaldri leit.

Smáforrit

Málið er til sem smáforrit fyrir Android-snjallsíma og spjaldtölvur.
Forritið má nálgast hér.

Bakgrunnur og ritstjórn

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stendur að Málinu.

Í ritstjórn eru þrír starfsmenn stofnunarinnar: Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor, Halldóra Jónsdóttir verkefnisstjóri og Steinþór Steingrímsson verkefnisstjóri í upplýsingatækni.

Auk aðstandenda gagnasafnanna sem Málið sækir efni sitt til hafa aðrir starfsmenn lagt ritstjórninni lið við hönnun og undirbúning, m.a. Eva María Jónsdóttir kynningarstjóri og Trausti Dagsson verkefnisstjóri í upplýsingatækni.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur veitti styrk til vefforritunar og viðmótshönnunar. Málið naut einnig stuðnings úr Málræktarsjóði.

Vefgáttin málið.is var opnuð 2016 á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember.

Til glöggvunar: Þegar heiti vefgáttarinnar málið.is er ritað fullum fetum, þ.e. með endingunni .is, er hafður lítill upphafsstafur nema í upphafi málsgreinar. Þegar notað er stytta heitið Málið er haft stórt M.

Gagnasöfnin

Almennt

Gagnasöfnin sjö eru innbyrðis ólík að eðli og innihaldi enda er þeim ætlað að gegna mismunandi hlutverkum.

Á vissan hátt bæta hin sjö ólíku gagnasöfn hvert annað upp. Með hinum sameiginlega aðgangi á Málinu fá notendur því gleggri heildarmynd af því atriði sem leitað er að hverju sinni heldur en fæst ef leit takmarkast við aðeins eitt gagnasafn.

Hvað varðar mismunandi markmið og innihald gagnasafnanna má meðal annars benda á að Beygingarlýsing íslensks nútímamáls geymir orð og beygingar sem tíðkast í íslensku og hún er fyrst og fremst unnin í anda lýsandi málfræði – enda þótt einnig sé að finna þar athugasemdir og ábendingar um notkun. Stafsetningarorðabókin og Málfarsbankinn hafa á hinn bóginn beinlínis það meginhlutverk að leiðbeina um réttan rithátt og málnotkun sem talin er samræmast hefðbundnum viðhorfum um vandað íslenskt mál. Í slíkum gagnasöfnum er áherslan því einkum á sviði vísandi málfræði.

Um einstök gagnasöfn

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
Beygingarlýsing íslensks nútímamáls er safn beygingardæma sem sýnir einstakar beygingarmyndir íslenskra orða, þar á meðal mannanafna. Upprunalegt markmið var m.a. að koma upp gagnasafni til nota í máltækni. Í safninu eru nú tæplega 260 þús. beygingardæmi.

Ritstjóri Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls er Kristín Bjarnadóttirrannsóknardósent.

Vefsíða Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls.

Íðorðabankinn
Íðorðabankinn veitir aðgang að íslenskum þýðingum á erlendum íðorðum og hugtakaskilgreiningum íðorða á íslensku og fleiri tungumálum. Þennan sérhæfða orðaforða er ekki endilega að finna í orðasöfnum um almennt mál. Hafa ber í huga að aðgangur gegnum málið.is birtir aðeins niðurstöður við íslensk leitarorð og sýnir því ekki allt það gagn sem hafa má af Íðorðabankanum og tengist erlendum fræðiheitum. Skal í því sambandi bent á eigin vef Íðorðabankans.

Íðorðabankinn er settur saman úr mörgum mismunandi íðorðasöfnum sem hvert og eitt lýtur eigin ritstjórn. Íðorðasöfnin, sem spanna meira en 60 sérsvið, eru misstór, sum geyma nokkra tugi eða hundruð hugtaka en önnur eru gríðarstór og geyma jafnvel tugi þúsunda hugtaka.

Ritstjóri Íðorðabankans er Ágústa Þorbergsdóttir málfræðingur.

Vefsíða Íðorðabankans.

Íslensk nútímamálsorðabók
Íslensk nútímamálsorðabók geymir merkingarskýringar og aðrar upplýsingar um u.þ.b. 50 þús. uppflettiorð. Reglulega bætast við ný orð og orðskýringar enda er orðabókin enn í vinnslu og ber að hafa í huga að skýringar við sum orð eru ekki fullmótaðar.

Ritstjórar Íslenskrar nútímamálsorðabókar eru Halldóra Jónsdóttirverkefnisstjóri og Þórdís Úlfarsdóttir orðabókarritstjóri.

Vefsíða Íslenskrar nútímamálsorðabókar.

Íslensk orðsifjabók
Íslensk orðsifjabók er eftir Ásgeir Blöndal Magnússon (1909-1987). Hún miðlar fróðleik, skýringum og skýringatilgátum um uppruna og söguleg vensl íslenskra orða og orðmynda, jafnt úr fornu máli sem úr nútímaíslensku. Orðsifjabókin kom út á prenti 1989 á vegum Orðabókar Háskólans. Bókin geymir um 25 þús. uppflettiorð.

Íslenskt orðanet
Íslenskt orðanet er umfangsmikið yfirlit um íslenskan orðaforða, orðasambönd og orðanotkun. Það hefur að geyma óviðjafnanlega lýsingu á innra samhengi orðaforðans þar sem byggt er á greiningu á merkingarvenslum orða og orðasambanda. Þá sameinar Íslenskt orðanet í raun hlutverk samheitaorðabókar og hugtakaorðabókar og nýtist því vel við hvers konar ritun og textagerð.

Höfundur Íslensks orðanets er Jón Hilmar Jónsson, fyrrv. rannsóknarprófessor.

Vefsíða íslensks orðanets.

Málfarsbankinn
Málfarsbankinn geymir safn stuttra greina um málfarsleg efni. Þar er leitast við að benda á málnotkun sem almennt hefur verið talin best við hæfi í málsniðum vandaðs og hefðbundins íslensks ritmáls og í vönduðu töluðu máli. Efni Málfarsbankans á meðal annars rætur í svörum sem tekin hafa verið saman við málfarsráðgjöf á Íslenskri málstöð og síðar Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ritstjóri Málfarsbankans er Jóhannes B. Sigtryggssonrannsóknarlektor.

Vefsíða Málfarsbankans.

Stafsetningarorðabókin
Stafsetningarorðabókin er opinber réttritunarorðabók um íslensku. Hlutverk hennar er að leiðbeina um rithátt og beygingar. Um 73 þús. flettiorð voru í fyrstu útgáfu, 2006; Rit Íslenskrar málnefndar 15, ritstj. Dóra Hafsteinsdóttir.

Önnur útgáfa (2016) er einungis aðgengileg á rafrænu formi. Ritstjóri er Jóhannes B. Sigtryggsson rannsóknarlektor.

Ábendingar, athugasemdir

Notendur geta raðað gagnasöfnunum sjö innbyrðis að eigin ósk með því að draga heiti þeirra með músinni upp eða niður á skjánum.

Hægt er að loka fyrir niðurstöður úr tilteknu safni á skjánum.

Í vinstra horni neðst er hnappur með tenglum í alla vefi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og samstarfsaðila. Hér má m.a. finna fleiri vefi um mál og málnotkun, á borð við RitmálssafniðRisamálheildinaNýyrðavefinn og ISLEX, auk Málsins og gagnasafna innan þess.

Notendur eru hvattir til að senda athugasemdir og ábendingar um framsetningu og virkni Málsins til ritstjórnar:
Ari Páll Kristinsson
Halldóra Jónsdóttir
Steinþór Steingrímsson

Ef um er að ræða athugasemdir um efnivið og framsetningu í einstökum gagnasöfnum er best að koma þeim beint til ritstjóra viðkomandi gagnasafns.