Skip to main content

Lærdómsríkur tími: Alþjóðlegur sumarskóli í íslenskri tungu og menningu

Nemendur Alþjóðlega sumarskólans skoða Snorralaug í Reykholti
Snorralaug
Branislav Bédi

Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast skipulagningu alþjóðlegs sumarskóla í íslenskri tungu og menningu í samvinnu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Þetta er í þrítugasta og sjötta sinn sem slíkur sumarskóli er haldinn. Vegna COVID-19-faraldursins var brugðið á það ráð að halda íslenskunámskeið aftur í ár í blönduðu formi. Reynslan frá síðustu tveimur árum, þegar COVID-19-faraldurinn var í fullum gangi, sýnir að hægt er að bjóða upp á blandaða kennslu í stað- og fjarnámi. Þetta fyrirkomulag er sérstaklega hentugt þeim sem geta ekki ferðast til Íslands af ýmsum ástæðum en vilja samt læra íslensku. Námskeiðið stendur yfir í fjórar vikur og samanstendur af sjötíu tímum í íslensku máli og tíu tímum þar sem fjallað er um náttúru Íslands, sögu Íslendinga, menningu á Íslandi, íslenskar nútímabókmenntir og íslensk stjórnmál. Þeir sem eru í staðnámi geta heimsótt menningarstofnanir og skoðað sig um á sögustöðum. Mikill áhugi er á að læra íslensku víða um lönd og árlega sækja á bilinu sjötíu til hundrað nemendur um að taka þátt en aðeins um helmingur þeirra kemst að.

Í ár er alþjóðlegur sumarskóli haldinn 4.–29. júlí. Þátttakendur eru 44 í staðnámi og ellefu í fjarnámi. Nemendurnir eru frá nítján löndum og var þeim skipt í tvo hópa í íslenskunáminu eftir kunnáttu en allir höfðu þegar lagt stund á íslensku heima fyrir, annaðhvort hjá íslenskukennurum eða með aðstoð vefnámskeiðsins Icelandic Online.

Frásagnir kennara af kennslu í alþjóðlegum sumarskóla í íslenskri tungu og menningu

Nemendur Alþjóðlega sumarskólans skoða Öxarfoss

Ásdís Helga Jóhannesdóttir, Max Naylor og Branislav Bédi eru kennarar í alþjóðlegum sumarskóla í ár. Ásdís er með BA-próf í íslensku og er nú við það að ljúka meistaranámi í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Meðfram náminu hefur hún kennt íslensku sem annað mál víða, bæði í einkakennslu og sem kennari við Háskóla Íslands. Max er með BA-gráðu í íslensku frá UCL-háskóla í Lundúnum og íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands og starfar nú sem íslenskukennari við Edinborgarháskóla í Skotlandi. Hann sótti sjálfur sumarskólann sem nemandi árið 2019 og kom aftur ári síðar til að vinna sem aðstoðarmaður. Branislav er tungumálakennari með meistaragráðu frá Slóvakíu og annarsmálsfræðingur með doktorsgráðu frá Háskóla Íslands. Hann stundaði einnig BA-nám í íslensku fyrir útlendinga þegar hann kom fyrst til landsins og starfar nú sem verkefnisstjóri á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hann sér um skipulagningu sumarnámskeiða en í ár starfar hann einnig sem kennari á fjarnámskeiði á vegum sumarskólans. Tímarnir þar eru færri og er kennt þrisvar í viku seinni part dags vegna tímamismunar.

Ásdís Helga Jóhannesdóttir sóttist eftir að kenna íslensku í alþjóðlegum sumarskóla í ár af því að hún hafði þrisvar sinnum áður kennt þar. Aðspurð af hverju hún valdi að kenna hér segir hún: „Upplifun mín sem kennari að kenna í þessum sumarskóla er allt öðruvísi en önnur kennsla sem ég hef sinnt.“ Samkvæmt Ásdísi nær kennari að tengjast hverjum nemanda mjög vel, auk þess sem „kennari getur fundið styrkleika hvers og eins nemanda í tungumálatileinkun sinni og þar af leiðandi nær hann að draga fram það besta í hverjum og einum og þannig tekst öllum að læra íslensku mjög vel. Í raun og veru myndi ég alltaf kjósa frekar að kenna á þessu námskeiði en í því hefðbundna,“ segir Ásdís þrátt fyrir að hún fái oft erfiðar málfræðispurningar frá nemendum. Þessar spurningar eru hennar helsti ávinningur vegna þess að þær fá hana til þess að velta íslenskri málfræði enn frekar fyrir sér.

Nemendur Alþjóðlega sumarskólans skoða Óseyrartanga

Max Naylor hefur kennt íslensku í sumarskólanum áður og hefur mjög gaman af því að kenna þar. „Þó að námskeiðið geti verið bæði þungt og létt í senn þá er andrúmsloftið alltaf afslappaðra en á venjulegu háskólanámskeiði. Í sumarskólanum er kennd mikil málfræði á stuttum tíma en fjölbreytni nemenda skapar afar spennandi andrúmsloft í kennslutímum vegna þess að þeir sem eru færari í íslensku hjálpa hinum,“ segir hann og bætir við að nemendur læri íslensku af svo ólíkum ástæðum. „Sumir eiga íslenskan maka í útlöndum, aðrir eru „málfræðinördar“, enn aðrir eru bara hrifnir af íslenskri tónlist eða menningu o.s.frv. Og svo eru alltaf einhverjir „víkingar“ sem langar að læra nútímaíslensku til að geta skilið fornnorrænu betur,“ segir Max. Ásdís segir að þar sem nemendurnir hittist á hverjum degi þá myndist líka ákveðin hópstemning. Allir styðja hver annan og hjálpast að og kennslustundirnar verða afslappaðar og skemmtilegar og því er auðveldara að læra málfræði. Hún segist kenna nemendum sínum hversu lýsandi íslenskan er og hvernig tungumálið hagar sér. „Þar af leiðandi komast nemendur að því hversu skemmtilegt og sérstakt tungumál íslenskan er og að það sé alls ekki svo erfitt að byrja að tala smá íslensku á meðan þeir dveljast á Íslandi,“ segir Ásdís. Varðandi málfræðikennslu segir Max að það fari líka eftir móðurmáli nemenda hvort þeim finnist íslenska erfið eða ekki. „Vissulega eru ákveðnir þættir erfiðari fyrir suma en ekki fyrir alla. Hins vegar reyni ég alltaf að ítreka að það sé hægt að læra íslensku ef maður tekur einn lítinn málfræðibút í einu.“ 

Branislav Bédi tók að sér að kenna íslensku sem erlent mál á fjarnámskeiði aftur þetta sumar. Mikil eftirspurn var eftir fjarnámskeiði bæði í fyrra og í ár en vegna þess að aðeins örfáir nemendur endurstaðfestu skráningu sína á fjarnámskeiðið í bæði skiptin þá hefur aðeins verið hægt að bjóða upp á hálfa kennslu á netinu. Aðspurðir vildu nemendurnir endilega stunda þessa hálfu kennslu og læra eins mikið og hægt væri á þeim tíma. Reynslan frá því í fyrra sýndi að nemendur í fjarnámskeiði eru mjög duglegir að læra málfræði og að gera heimaverkefni og þar af leiðandi gátu þeir allir haldið frábæra munnlega kynningu á íslensku eftir aðeins 30 kennslustundir. Nemendurnir gátu einnig nýtt sér aðgang að kennsluefni og upptökum af gestafyrirlestrum um sögu Íslands og menningu sem vistað var í umsjónarkerfinu Canvas á vegum staðnáms í Reykjavík en notað verður svipað kennslufyrirkomulag aftur í ár.

Victoria Bakshina hefur starfað sem aðstoðarmaður úr hópi erlendra nemenda við Háskóla Íslands í sumarskólanum undanfarin þrjú ár og aðstoðað við tæknilega hluti, svo sem að myndatökur allra gestafyrirlesara séu í lagi og aðgengilegar fyrir nemendur í Canvas-kerfinu. Auk þess gegnir hún hlutverki leiðbeinanda og svarar óformlegum spurningum nemenda, m.a. um nemendalíf í Reykjavík.