Konungsbók Snorra-Eddu (GKS 2367 4to) er eitt elsta handrit Snorra-Eddu og það sem venjulega er lagt til grundvallar við útgáfur verksins. Rannís hefur veitt styrk til rannsókna á handritinu og felur verkefnið í sér þrjú markmið. Í fyrsta lagi að gefa út nýja rafræna útgáfu af handritinu með þeim aðferðum sem nú þykja bestar. Í öðru lagi að rannsaka rithátt og stafsetningu handritins í því augnamiði að varpa ljósi á forrit þess. Þannig munum við öðlast aukna þekkingu á handritahefð Snorra-Eddu og tengdra verka. Í þriðja lagi eru handrit sem runnin eru frá Konungsbók könnuð og gildi þeirra ákvarðað í þeim tilfellum þar sem texti hefur glatast úr GKS 2367 4to. Haukur Þorgeirsson stýrir verkefninu en meðal starfsmanna þess 2017 voru Michael MacPherson, Alec Shaw og Lee Colwill. Lokið hefur verið við uppskrift textans en greiningarvinna heldur áfram.