Á undanförnum árum hafa samskipti milli Íslands og Japans farið ört vaxandi. Fjöldi Japana hefur sýnt áhuga á íslensku máli og menningu. Japanska hefur lengi vel verið næst vinsælasta erlenda tungumálið sem kennt er við Háskóla Íslands og nokkrir framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu hafa boðið nemendum sínum upp á byrjendanámskeið í tungumálinu. Þrátt fyrir þetta eru enn ekki til tvímála orðabækur milli íslensku og japönsku.
Til þess að leggja fyrstu drög að íslensk-japanskri veforðabók var sótt um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna árið 2020. Shohei Watanabe vann að verkefninu og umsjónarmenn þess voru Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent á orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Trausti Dagsson, verkefnisstjóri í upplýsingartækni við stofnuninni, og Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.
Orðabókin sem hlotið hefur nafnið Ísjap inniheldur rúmlega eitt þúsund uppflettiorð með einföldum japönskum þýðingum og er öllum opin á netinu án endurgjalds á vefslóðinni: http://isjap.org. Afrakstur verkefnisins er auk þess vinnsluviðmót veforðabókarinnar, ritstjórnarstefna þar sem vinnulaginu er lýst og listi yfir uppflettiorð með orðfræðilegum upplýsingum og aðgengilegur með afnotaleyfi CC-BY-NC 4.0 frá Creative Commons. Þess vegna er hægt að nýta afraksturinn í vinnslu tvímála orðabóka milli íslensku og annarra tungumála, ekki síst þeirra sem teljast smá hér á landi og eiga sér því engar íslenskar orðabækur, t.d. ýmis innflytjendamál.
Ætlunin er að þróa orðabókina áfram með því að bæta inn nýjum flettum og fleiri orðastæðum, notkunardæmum og hljóðskrám þar sem við á í þær flettur sem fyrir eru. Einnig er stefnt á að endurbæta leitarkerfið og framsetningu efnisins til þess að koma til móts við notendur.
Verkefnið er unnið í því skyni að styrkja menningartengsl og efla málskilning milli Íslands og Japans og felur einnig í sér mikla möguleika til þess að efla tengsl við önnur málsamfélög.