Skip to main content

Heilagur Nikulás

Undirbúningur hefur staðið yfir í mörg ár að vísindalegri útgáfu á Nikulássögum erkibiskups, sem bæði eru til þýddar og frumsamdar. Elsta brotið er þýðing, líklega frá 12. öld, varðveitt í handriti frá því um 1200. Þessi þýðing virðist hafa verið notuð við þá gerð sögunnar sem varðveitt er í handritinu Stock. perg. nr. 2 fol. frá fyrri hluta 15. aldar. Af íslensku skinnbókarbroti frá 14. öld sem nú er varðveitt í Ríkiskjalasafninu í Óslo er einnig ljóst að Nikulássaga hefur einnig þekkst í annarri þýðingu. Stærsta sagan af heilögum Nikulási er aftur á móti sett saman á öndverðri 14. öld af Bergi Sokkasyni ábóta á Munkaþverá. Veigamesti hluti rannsóknarinnar snýst um þá gerð sögunnar. Ætlunin er að gera í inngangi útgáfunnar rækilega grein fyrir vinnubrögðum Bergs Sokkasonar ábóta sem var einn mikilvirkasti helgisagnaritari Íslendinga á 14. öld. Af sögu Bergs hafa varðveist 9 handrit og handritabrot frá miðöldum og eitt pappírshandrit sem skrifað var upp á fyrri hluta 18. aldar eftir skinnbók sem nú er glötuð. Aðeins tvö handritanna hafa að geyma allan texta sögunnar, AM 640 4to, Ærlækjarbók, frá lokum 15. aldar og Stock Perg nr. 16 4to, Helgastaðabók, frá því um 1400. Skylt þessu verkefni er útgáfa á latneskum Nikulástíðum með nótum. Þær hafa geymst í einu handriti af Nikulássögu Bergs Sokkasonar, Ærlækjarbók sem komin er frá Ærlæk í Öxarfirði. Nikulástíðir hafa mjög mikið menningarsögulegt gildi, þar sem fáar íslenskar tíðabækur hafa varðveist heilar og lítið er vitað um þetta svið íslenskrar menningar. Markmiðið með útgáfunni er að gefa íslenskum almenningi og fræðimönnum innsýn inn í menningarheim trúar og tónlistar á miðöldum. Tíðirnar verða gefnar út ljósprentaðar, með stafréttum texta andstefja og svara, en einnig verða nóturnar færðar frá fjórum strengjum yfir á fimm eins og nú tíðkast og textinn samræmdur og loks þýddur á íslensku.

Sverrir Tómasson er verkefnisstjóri. Verkefnið hefur hlotið styrk úr Kristnihátíðarsjóði og samstarfsmaður Sverris er Eggert Pálsson tónlistarmaður.