Skip to main content

Gunnar Thor Örnólfsson hannar íðorðavinnuborð

Gunnar Thor hóf störf hjá Árnastofnun í október 2019 og hafði þá nýverið lokið meistaragráðu í tal- og málvinnslu (e. Speech and Language Processing) frá Edinborgarháskóla. Gunnar Thor starfaði áður hjá stofnuninni árin 2017−2018 eftir að hafa lokið B.Sc.-gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og vann þá við hugbúnað tengdan Risamálheildinni (http://malfong.is/?pg­rmh, malheildir.arnastofnun.is).


Nú starfar Gunnar Thor við verkefni sem Ágústa Þorbergsdóttir málfræðingur stýrir og snýst um að beita sjálfvirkum aðferðum til að auðvelda vinnu orðanefnda og ritstjóra íðorðalista. Hjarta verkefnisins er íðorðaleitarforrit, þróað af Hjalta Daníelssyni fyrir meistaraverkefni hans í tölvunarfræði. Forritið tekur við texta sem notandinn gefur því og skilar lista af mögulegum íðorðum. Hlutverk Gunnars Thors er að flétta þetta forrit inn í notendavænt viðmót sem gerir notendum kleift að nýta sjálfvirka leitarforritið til að safna orðum og orðasamböndum í íðorðalista. Áætluð verklok eru í apríl 2020.