Skip to main content

Fréttir

Yfirlýsing vegna viðtals á vef Stofnunar Árna Magnússonar

Vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur borist eftirfarandi orðsending frá Kristjáni Árnasyni prófessor í íslensku:

Að gefnu tilefni vil ég biðja vef Árnastofnunar að birta eftirfarandi athugasemd vegna viðtals við mig um grein um íslensk fræði í hausthefti Skírnis 2015 (bls. 397-423). Viðtalið birtist á vef stofnunarinnar þann 11. febrúar s.l.

Þar segir svo meðal annars:

„Á unga aldri var maður uppfullur af vísindum sem maður var búinn að læra í útlöndum og vildi flytja það allt með sér hingað heim og inn í háskólann. Maður var kannski gjarn á að spyrja hvernig getur íslenskan styrkt teoríuna? En þegar frá líður verð ég að viðurkenna að ég er minna upp á teoríuna en margir kollegar mínir. Viðfangsefnið sjálft, íslenskan, finnst mér að hafi hálfpartinn gleymst í náminu og hinar alþjóðlegu kenningar um allt milli himins og jarðar settar í forgrunn. Mér finnst tímabært að spyrja hvað getur teorían gert fyrir íslenskuna og þar með hjálpað okkur að skilja okkar tilvist?“

Ég hef orðið þess var að einstakir samstarfsmenn mínir í Íslensku- og menningardeild H.Í.  hafa talið að svo mætti skilja að í þessu felist ásökun um vinnusvik hjá þeim, þar sem þeir hafi ekki sinnt íslenskunni nógu vel. Orðalagið sem einkum mun hafa valdið þessum óþægindum er setningin:  „Viðfangsefnið sjálft, íslenskan, finnst mér að hafi hálfpartinn gleymst í náminu og hinar alþjóðlegu kenningar um allt milli himins og jarðar settar í forgrunn.“  Það skal viðurkennt að þetta er ógætilegt orðalag og hægt að túlka það á neikvæðan hátt í samhengi viðtalsins. Mér þykir leitt að einhverjum samstarfsmönnum skyldi finnast að sér vegið og er tilbúinn til að draga þessi ummæli til baka; ætlunin var ekki að gera lítið úr akademísku starfi kollega minna, sem sumir leggja aðrar fræðilegar áherslur en ég eða hafa aðrar skoðanir um skipulag íslenskunáms.

 

25. febrúar 2016

Kristján Árnason

 

Skrifstofa stofnunarinnar er í Árnagarði.