Skip to main content

Fréttir

Vísindavaka Ranníss

Samsett mynd af bás Árnastofnunar. Kort og veggsjöld á veggjum. Örnefnaskrár fyrir bæinn Þingdal. Emily Lethbridge sýnir gest vefinn nafnið.is

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum setti upp bás á Vísindavöku Ranníss 2022. Að þessu sinni stóðu Emily Lethbridge, rannsóknardósent á nafnfræðisviði stofnunarinnar, og Fjóla K. Guðmundsdóttir vefstjóri vaktina í Laugardalshöll. Gestum og gangandi gafst færi á að kynna sér ýmislegt sem viðkemur starfsemi nafnfræðisviðs Árnastofnunar. Hægt var að skoða örnefnaskrár einnar jarðar, rýna í gömul Íslandskort og fletta rafrænt upp á alls kyns örnefnum. Vefurinn nafnið.is var sérstaklega kynntur og einnig verkefnið Hvar er?

Nafnið.is

Nafnið.is var opnað árið 2020 en síðan veitir aðgang að meira en 15.000 skjölum úr örnefnasafni Árnastofnunar sem geyma heimildir um örnefni vítt og breitt um landið. Hægt er að leita í örnefnaskrám með því að slá inn bæjarnafn eða annað örnefni í leitarreit síðunnar. Einnig er hægt að fletta í safninu eftir sveitarfélögum eða sýslum og hreppum.

Hvar er?

Verkefnið Hvar er? er samstarfsverkefni Landmælinga Íslands og Árnastofnunar sem var hleypt af stokkunum 15. september 2021. Markmið verkefnisins er að hvetja staðkunnuga til að skrá staðsetningu örnefna í örnefnagrunn Landmælinga Íslands.