Skip to main content

Fréttir

Vinnustofa NORDKURS

Vinnustofa NORDKURS var haldin í Stokkhólmi 22.−25. apríl. Fjallað var um kennslu í Norðurlandatungumálum á sumarnámskeiðum við norræna háskóla og eflingu norrænnar menningar meðal háskólanema. Þátttakendur frá Íslandi voru kennarar í íslensku sem öðru máli, Ana Stanicevic og Marc D. S. Volhardt, og Íslandsfulltrúi fyrir Nordkurs, Branislav Bédi. Af þessu tilefni var þátttakendum boðið að heimsækja íslenska sendiráðið í Stokkhólmi þar sem sendiherrann, Bryndís Kjartansdóttir, fjallaði m.a. um mikilvægi háskólanáms í þýðingafræði sem styður við útbreiðslu menningararfs til komandi kynslóða, ekki síst í gegnum bókmenntir. Þau Ana, Marc og Branislav heimsóttu einnig norrænudeildina við Uppsalaháskóla en þar á kennsla í íslensku máli, nýju og fornu, sér langa sögu.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt Hugvísindasviði Háskóla Íslands standa ár hvert fyrir Nordkurs-sumarnámskeiðum í íslensku máli og bókmenntum, sögu og samfélagi sem ætluð eru norrænum nemendum. Nemendur frá Íslandi geta einnig sótt um þátttöku í sumarnámskeiðum á hinum Norðurlöndunum í gegnum Nordkurs. Frekari upplýsingar um námskeiðin má nálgast á heimasíðu Nordkurs.

Sautján manns stilla sér upp fyrir myndatöku
Hópurinn í íslenska sendiráðinu í Stokkhólmi.
Branislav Bédi

 
Þrír karlar og ein kona standa við kommóðu sem á eru fánar Norðurlanda
Í Uppsalaháskóla.
Branislav Bédi