Skip to main content

Fréttir

Vinna hafin við nýja íslensk-pólska orðabók

Hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er hafin vinna við nýja íslensk-pólska veforðabók. Orðabókin er tíunda tvímála orðabók Árnastofnunar og er byggð á ISLEX- verkefninu og fleiri orðabókarverkum sem unnið hefur verið að á stofnuninni undanfarin 15 ár. Verkefnið fékk fjárveitingu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og stefnt er að því að opna fyrstu útgáfu orðabókarinnar með tuttugu þúsund uppflettiorðum í lok þessa árs. Fullunnin mun orðabókin hafa fimmtíu og fimm þúsund uppflettiorð ásamt fjölda dæma og orðasambanda sem verða þýdd á pólsku; hægt verður að hlusta á hvernig orðin eru borin fram og tenglar verða í beygingarupplýsingar í BÍN. Orðabókin verður ókeypis og öllum opin á vefnum. Starfsmenn verkefnisins eru Stanislaw Bartoszek verkefnisstjóri pólsku, þýðendur eru Aleksandra Maria Cieslinska, Emilia Mlynska og Miroslaw Ólafur Ambroziak. Aðalritstjóri er Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir er verkefnisstjóri.  

Ljósm.: SSJ
Starfsmenn við íslensk-pólska orðabók, talið frá vinstri: Emilia Mlynska, Stanislaw Bartoszek, Halldóra Jónsdóttir, Miroslaw Ólafur Ambroziak, Þórdís Úlfarsdóttir og Aleksandra Maria Cieslinska.