Skip to main content

Fréttir

Vigdís Finnbogadóttir hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2010 voru afhent á hátíðardagskrá í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Auk þess voru veittar tvær sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra veitti Vigdísi Finnbogadóttur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2010.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:

,,Vér íslendíngar höfum nú einusinni hlotið þessa hermdargjöf, hið íslenska mál, og það er dýrlegasta menníngarverðmætið sem vér eigum, og ef vér viljum ekki gera eitthvað fyrir snillínga þess, þá eigum vér að flytja héðan burt – alt kraðakið einsog það leggur sig – og það strax á morgun. Vér eigum að fara til Mexíkó og fara að tala spænsku.” Halldór Laxness mælir svo í erindi um menningarmál árið 1926.

Frá því að þessi orð féllu hafa fjölmargir lagt lóð á vogarskálar svo efla megi málvitund þjóðar og styrkja stoðir íslenskrar tungu. Meðvituð umræða um tungumálið og gildi þess nærir og bætir skilyrði fyrir vöxt og framgang málsins.

Ráðgjafarnefndin mælir að þessu sinni með því að Vigdís Finnbogadóttir, velgjörðarsendiherra Sameinuðu Þjóðanna í tungumálum, fyrrverandi forseti Íslands og leikhússtjóri fái Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu.

Í reglum menntamálaráðuneytis um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar segir að þau beri að veita einstaklingum er hafa unnið íslenskri tungu gagn „með sérstökum hætti.” Þetta á sannarlega við um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi kennara, leikhúsmann og forseta Íslands. Leikhús, þar sem íslenskt mál er flutt með öllum þess blæbrigðum, eru musteri tungunnar; kennsla í erlendum tungumálum víkkar sýn á form og líf íslensks máls, og embætti forseta Íslands er æðsta trúnaðarstarf sem þjóðin felur einum manni. Vigdís var í starfi sínu sem forseti óþreytandi að benda á gildi íslenskrar tungu fyrir mannlífið í þessu landi. Í fyrstu opinberri ræðu sinni eftir að hún var kjörin lagði hún áherslu á þá auðlegð sem Íslendingar eiga í menningararfi sínum, en sýndi um leið með tilvitnun í þýðingu Helga Hálfdanarsonar á texta Shakespeares, að allur heimurinn rúmast innan þessara vébanda. Í forsetatíð sinni flutti Vigdís þennan boðskap um gildi íslenskrar menningar fyrir Íslendinga, og sem fyrsta konan, er var með lýðræðislegum hætti valin þjóðhöfðingi, beindust að henni augu alls heimsins. Vigdís hélt því fram réttilega að ríkidæmi heimsmenningarinnar byggist á margbreytileika þeirra tungumála sem mannkynið hefur skapað. Eftir að hún lét af embætti forseta Íslands hefur hún haldið áfram að boða þennan sannleik og fengið góðan hljómgrunn, enda er hún á vegum Sameinuðu þjóðanna sérstakur verndari þjóðtungna sem eiga í vök að verjast.

Að mati ráðgjafarnefndar er Vigdís Finnbogadóttir verðugur handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar.

Vigdís Finnbogadóttir hlaut í verðlaun 700 þúsund krónur frá Íslandsbanka og mennta- og menningarmálaráðuneyti og ritið Íslenska tungu sem er í þremur bindum.

Viðurkenningar á degi íslenskrar tungu:
Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.

Menntamálaráðherra ákvað að veita tvær viðurkenningar 2010.

Önnur var veitt Möguleikhúsinu og hina fékk hljómsveitin Hjálmar.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir: 

 

Möguleikhúsið
 

„Í tuttugu ár, eða frá 1990, hefur Möguleikhúsið starfað sem atvinnuleikhús með megináherslu á leiksýningar fyrir börn og unglinga. Lengst af hafði leikhúsið fast aðsetur fyrir sýningar sínar en hefur þó jafnframt frá upphafi lagt áherslu á að þær væru þannig úr garði gerðar að auðvelt væri að skjótast með þær hvert á land sem er – og iðulega út fyrir landsteinana. Undanfarin misseri, eftir að opinber stuðningur við leikhúsið féll niður hefur það alfarið snúið sér að farandsýningum og tekist að halda þeim gangandi með þrautseigju og útsjónarsemi.

Á þessum tuttugu árum hefur Möguleikhúsið sýnt á fjórða tug frumsaminna leikverka sem langflest byggja á efni úr íslenskum bókmenntum, þjóðsögum og þjóðtrú. Leikhúsið hefur því átt drjúgan þátt í að kynna menningararfinn á frjóan og skemmtilegan hátt fyrir yngstu kynslóð leikhúsgesta og stuðlað þannig að verndun og varðveislu íslenskrar tungu og skapað henni sóknarfæri.

Það er mat ráðgjafarnefndarinnar að Möguleikhúsið sé afar vel að því komið að hljóta sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu á degi íslenskrar tungu.“

 

Hljómsveitin Hjálmar

Hljómsveitin Hjálmar tók við viðurkenningu í tilefni dagsins.

„Hljómsveitin Hjálmar var stofnuð í Keflavík 2004 og lagði frá upphafi áherslu á íslenskt afbrigði af reggí-tónlist, svokallað lopapeysu-reggí. Hljómsveitin hefur starfað síðan, með nokkrum hléum og ýmsum mannabreytingum, en ávallt við miklar vinsældir meðal ungra sem aldinna sem þyrpst hafa á ótal hljómleika Hjálmanna eða sótt í hljómdiska þeirra sem orðnir eru sex talsins.

Frá upphafi hefur það verið eins og sjálfsagt mál að allir söngtextar sem frá Hjálmum koma séu á íslensku. Þannig hafa þeir lagt fram drjúgan skerf til að byggja upp þá ímynd að meðal framsækinna íslenskra rokk- og dægurtónlistarmanna sé íslenska sjálfsagt mál, eða ætti að vera það, þó alltof margir aðrir virðist af einhverjum ástæðum þeirrar skoðunar að enskan ein hæfi slíkri tónlist.

Af þessum sökum er það mat ráðgjafarnefndarinnar að hljómsveitin Hjálmar verðskuldi það eindregið að hljóta viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu á degi íslenskrar tungu.“

Viðurkenningarhafar fengu listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.


Í ráðgjafarnefnd um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu sitja Kristín Helga Gunnarsdóttir, Kristján Árnason og Þórarinn Eldjárn.


Á vef dags íslenskrar tungu www.menntamálaráðuneyti.is/menningarmal/dit eru frekari upplýsingar um verðlaunin, hátíðardagskrána og aðra viðburði undir merkjum dagsins.