Mánudaginn 4. nóvember var Brodda Broddasyni fréttamanni veitt viðurkenning úr Minningarsjóði Björns Jónssonar - Móðurmálssjóði. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra veitti Brodda viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í Ráðherrabústaðnum, en þar bjó Björn Jónsson í ráðherratíð sinni.
Í rökstuðningi sjóðsstjórnar segir: Stjórn Minningarsjóðs Björns Jónssonar - Móðurmálssjóðsins veitir Brodda Broddasyni viðurkenninguna fyrir örugga og fagra meðferð hins talaða máls í útvarpi. Ljósvakamiðlarnir gegna sífellt stærra hlutverki í fjölmiðlun og hafa ótvíræð áhrif á máltilfinningu hlustenda og áhorfenda og afstöðu þeirra til tungumálsins. Broddi hefur vakið sérstaka eftirtekt fyrir fumlausa og eðlilega framsetningu og blæbrigðaríkt orðfæri, ekki síst þegar mikið liggur við í beinum útsendingum, og er hann í því efni góð fyrirmynd. Stjórnin vill með viðurkenningunni hvetja ljósvakamiðla til að sýna metnað þegar þeir velja fólk til starfa í útvarpi og sjónvarpi, og huga sérstaklega að færni þess í íslensku máli.
Móðurmálssjóðurinn var stofnaður árið 1943 til minningar um Björn Jónsson, ritstjóra og ráðherra, og er tilgangur hans að veita verðlaun einstaklingi er hefur aðalstarf sitt við fjölmiðla og hefur að dómi sjóðsstjórnar ritað svo góðan stíl og vandað íslenskt mál undanfarin ár að viðurkenningar sé vert. Verðlaunin voru fyrst veitt úr sjóðnum á aldarafmæli Björns 1946. Í stjórn sjóðsins sitja: Guðrún Nordal formaður, Höskuldur Þráinsson, Kristín Steinsdóttir, Hjálmar Jónsson og Pétur Björn Pétursson.