Skip to main content

Fréttir

Viðgerð Flateyjarbókar hefst á ný

Eitt af mikilvægustu verkefnum nýs forvarðar stofnunarinnar, Vasarė Rastonis, snýr að viðgerð Flateyjarbókar en grunnur að því verki var lagður fyrir um tuttugu árum

Mynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

Flateyjarbók var um þriggja alda skeið geymd í bókhlöðu Danakonungs og var á 18. öld bundin þar inn í glæsilegt band sem skiptist í tvö bindi. Bókin var losuð úr bandinu fyrir hartnær hundrað árum svo að hægt væri mynda síður hennar fyrir ljósprentaða útgáfu handritsins. Að því búnu var hún bundin inn aftur en þá vildi svo til að lími var makað heldur ótæpilega á kjölinn. Þetta lím olli því með tímanum að ekki var óhætt að opna handritið til fulls og hætta var á skemmdum. Viðgerðin snýst því um að losa handritið úr bandinu, hreinsa burt límið og gera við rifur og aðrar skemmdir sem orðið hafa áður en hægt verður að binda bókina inn að nýju. Nú er staðan sú að fyrra bindið hefur verið hreinsað en síðara bindið á eftir að fá sömu meðferð. Með Vasarė vinnur Jiři Vnouček, forvörður á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Hann kom til landsins á dögunum í eina ferð af mörgum sem fyrirhugaðar eru vegna verkefnisins.

 

Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður, Eva María Jónsdóttir kynningarstjóri, Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir prestur og Þórarinn Eldjárn skáld hlusta á útskýringar Jiři Vnouček forvarðar. Mynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Vinafélag Árnastofnunar hefur frá upphafi haft það á sinni stefnuskrá að finna fé til að ljúka þessu mikla forvörsluverkefni sem nú hefur formlega hafist á ný með heimsókn Jiřis og samstarfi þeirra Vasarė.