Vésteinn Ólason, fyrrum forstöðumaður stofnunarinnar, hlýtur Gad Rausings verðlaunin 2010 fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði hugvísinda. Verðlaunaupphæðin er 800 þús. sænskar kr. Það er akademía sögulegra hugvísinda og fornfræði (Kungl. Vitterhets Historie och Antikvitetsakademien) í Stokkhólmi sem veitir verðlaunin, og þau verða formlega afhent í Stokkhólmi 19. mars n.k.
Verðlaunin eru kennd við Gad Rausing, sem var sænskur iðnjöfur og jafnframt fræðimaður á sviði fornleifafræði og velgjörðamaður rannsóknarstarfa. Gad Rausing andaðist árið 2000, en verðlaunin hafa verið veitt árlega frá 2003, fræðimönnum á Norðurlöndum. Rökstuðningurinn að þessu sinni er að verðlaunin séu veitt fyrir „framståande insatser som förnyare av forskningen om den isländska litteraturen och som bevarare och förvaltare av det isländska handskriftsarvet.“