Skip to main content

Fréttir

Verkefnið Hvað er með ásum? tekst á flug

Askur Yggdrasils.

Vorið 2024 hlaut Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir fræðslu- og listsköpunarverkefnið Hvað er með ásum? 

Verkefnið er unnið í samvinnu við skóla um allt land; Grunnskóla Drangsness, Grunnskóla Hólmavíkur, Grunnskóla Snæfellsbæjar, Nesskóla Neskaupstað, Vesturbæjarskóla, Hraunvallaskóla og Myndlistaskólann í Reykjavík. Í hverjum skóla eru kennarar sem hafa unnið með þeim Ingibjörgu Þórisdóttur og Mörtu Guðrúnu Jóhannesdóttur að því að miðla handritaarfinum til nemenda sinna og vinna úr því fjölbreytta efni sem handritin hafa að geyma. 

Fræðslupakki var unninn í tengslum við verkefnið sem Kristín Ragna Gunnarsdóttir, rithöfundur og myndlistarmaður, átti veg og vanda að. Kristín Ragna stóð einnig fyrir skapandi smiðjum fyrir unga sýningargesti í kjölfarið á opnun sýningarinnar Heimur í orðum í nóvember á síðasta ári.

Í vikunni bárust fréttir frá Grunnskóla Snæfellsbæjar en þar hefur Ingiríður Harðardóttir stýrt verkefninu með glæsibrag. Ingiríður fékk til liðs við sig umsjónarkennara 3. og 4. bekkjar en nú hafa nemendur þeirra unnið fjölbreytt verkefni í tengslum við norræna goðafræði. 

Á myndinni má sjá eitt af verkefnum barnanna, þeirra eigin Ask Yggdrasils og allar þær verur sem honum fylgja. Að sögn Ingiríðar hefur ríkt mikil ánægja með verkefnið og nemendur óskað eftir því að vinna áfram með norræna goðafræði. 

Í Myndlistarskóla Reykjavíkur munu þær Lovísa Lóa Sigurðardóttir og Guðrún Vera Hjartardóttir skipuleggja og þróa námskeið ásamt Þuríði Ósk Smáradóttur, deildarstjóra Barna- og unglinganámskeiða við skólann. Námskeiðin munu byggja á sýningunni Heimur í orðum og öllu því spennandi efni sem Árnastofnun varðveitir. 

Á næstu vikum heldur Marta Guðrún safnkennari Árnastofnunar í ferð um landið en hún mun heimsækja samstarfsskólana á landsbyggðinni og gefa börnunum þar færi á að stíga inn í heim handritanna.