Þann 6. nóvember síðastliðinn veitti Konunglega Gustav Adolfs akademían Rósu Þorsteinsdóttur verðlaun úr minningarsjóði Torsten Janckes en úr þeim sjóði eru veitt verðlaun og styrkir fyrir fræðastörf á sviði akademíunnar. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Rikssalen í Uppsalahöll.
Rósa hlýtur þessi verðlaun fyrir bók sína Sagan upp á hvern mann: Átta íslenskir sagnamenn og ævintýrin þeirra, sem akademían telur vera „mikilvægt framlag til íslenskrar þjóðsagnafræði með áherslu á samtímasagnahefð og sagnafólk.“
Rósa Þorsteinsdóttir lauk BA-prófi í bókasafnsfræði og þjóðfræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og meistaraprófi í þjóðfræði frá sama skóla árið 2005. Hún hefur starfað við Árnastofnun síðan 1995, sem rannsóknarlektor frá 2009. Rósa hefur haft umsjón með tölvuskráningu þjóðfræðasafns stofnunarinnar og sent frá sér margs konar útgáfur á efni þess, þ. á m. Hlýði menn fræði mínu (2002) og Einu sinni átti ég gott (2006). Þá hefur hún sinnt kennslu við þjóðfræðideild Háskóla Íslands auk margvíslegra starfa við söfnun, miðlun og rannsóknir þjóðfræðaefnis.