Skip to main content

Fréttir

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2021

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Arnaldur Indriðason, rithöfundur hlaut verðlaunin í ár við athöfn í Þjóðminjasafninu sem var streymt á vefmiðlum. Við sama tækifæri fékk Vera Illugadóttur dagskrárgerðargerðarkona á RÚV, sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu. 

Hér má lesa rökstuðning ráðgjafanefndar ráðherra:

Arnaldur Indriðason

Árið 2013 gerði verðlaunahafi þessa árs stöðu íslenskunnar að umtalsefni og sagði þá:

„Íslensk tunga virðist hafa sérstakan aðlögunarmátt, hún getur bæði endurnýjað sig og haldið í hið forna í leiðinni vegna þess að grunnurinn er sterkur og kannski sterkari en við gerum okkur grein fyrir. Ólíkt mörgum öðrum tungumálum sem eiga undir högg að sækja í litlum menningarsamfélögum, á íslenskan eina óvéfengjanlega grunnstoð sem hefur alltaf verið varnarvirki hennar og heimahöfn og það eru íslensku handritin.“

Verðlaunahafinn er rithöfundur og í verkum sínum hefur hann einmitt fléttað saman gamalt og nýtt með listilegum hætti. Hann tileinkaði sér form glæpasögunnar og nýtti það til að kafa í sögu einstaklinga og þjóðar, greina þjóðfélagsmein og rekja sig að rótum þeirra sem oft liggja djúpt í menningu okkar. Bækur hans hafa um langt skeið notið gríðarlegra vinsælda meðal ungra sem aldinna úr öllum stéttum íslensks þjóðfélags og þar með gegnt mikilvægu hlutverki í að viðhalda og auka lestraráhuga þjóðarinnar svo um munar.

Bækur höfundarins eru margfaldar í roðinu og þó þær hafi farið sigurför um heiminn er þar býsna margt sem fer fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem ekki gjörþekkja íslenskar bókmenntir og sögu. Þannig vaxa bækur hans líka með lesendum á öllum aldri. Um bækur hans sagði prófessor Bergljót Soffía Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur í grein að aðferðir hans miði ekki að því að lesendur gefi sig „einvörðungu á vald spennu eða taki með rökhugsun sinni þátt í að leysa morðgátu heldur og hinu að þekking þeirra, ímyndunarafl, tilfinningar og vitsmunir almennt fái að njóta sín.“

Verðlaunahafinn er, eins og flestir hafa getið sér til um Arnaldur Indriðason.

 

Vera Illugadóttir

Í Ríkisútvarpinu, útvarpi allra landsmanna, eins og það er oft kallað, eru gjarnan þættir sem höfða til mismunandi hlustenda, allt eftir aldri og áhugamálum, og víst er að þar er reynt að sinna sem flestum hópum hlustenda. Einn er þó sá þáttur sem virðist höfða til fólks á öllum aldri og með mjög mismunandi áhugasvið; þessi hópur á það þó sameiginlegt að hann nýtur þess að hlusta á sögur. Sögur af fólki, atburðum, hugmyndum, sögur úr fortíð, nútíð og jafnvel framtíð. Það er einmitt það sem gert er í þættinum Í ljósi sögunnar, en fyrir hann fær Vera Illugadóttir sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Með grípandi framsetningu söguefnis hverju sinni nær Vera eyrum hlustenda vítt og breitt um samfélagið. Hún segir sögur sínar á frjóu og fallegu máli og miðlar fróðleik sínum á tilgerðarlausan en áhrifaríkan hátt.

Ingunn Ásdísardóttir var formaður ráðgjafanefndar ráðherra. Aðrir nefndarmenn voru Haukur Ingvarsson og Katrín Olga Jóhannesdóttir.