Skip to main content

Fréttir

Vel sótt ráðstefna um tungumálanám og gervigreind

Ráðstefnan EUROCALL 2022: Intelligent CALL, granular systems and learner data var haldin 16.–19. ágúst 2022 í Veröld – húsi Vigdísar.

Um 280 gestir frá öllum heimshornum sóttu ráðstefnuna í ár en hún var haldin á netinu í samstarfi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var tölvustutt tungumálanám byggt á gervigreind: gagnagreiningarkerfi og notandagögn.

Með því að tvinna saman tungumálanám og gervigreind hefur skapast ný gerð tölvustudds tungumálanáms: tungumálanám með notkun gervigreindar (e. intelligent CALL). Í því felast ýmis tæki eins og talgreining og umritun hljóðs í texta (e. text-to-speach) sem veita nemendum sjálfvirka endurgjöf. Tækin læra á hegðun og mistök nemenda en með hjálp þeirra skapast „vélrænt nám“. Þannig er nemendum gert kleift að takast á við námið á árangursríkan hátt með tæknilegri aðstoð. Í þessu sambandi er gjarnan vísað í hagræðingarferli (e. optimisation process) í tölvustuddu tungumálanámi. Kerfin sem safna margvíslegum upplýsingum um þróun og framvindu námsins auk námshegðunar nemenda kallast gagnagreiningarkerfi (e. granular systems) og nákvæm greining kallast þá gagnagreining (e. granulation). Slík gagnagreiningarkerfi hafa komið að góðum notum t.d. í prófkerfum og kerfum sem styðja við tölvustutt tungumálanám á netinu. Gagnagreining nýtist þá jafnt til að greina notandagögn og spá fyrir um námsframvindu hjá einstaka nemanda (e. microscopic view) og hjá öllum nemendum sem eru í kerfinu (e. macroscopic view). Þannig gerir hún rannsakendum kleift að fylgjast með hegðun nemenda í smáatriðum en einnig til að greina heildarnámsmynstur og verkefnavinnu nemenda í víðara samhengi. Þema ráðstefnunnar tengist rannsóknarsviðum ofangreindra stofnana en þó sérstaklega Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum þar sem námshegðun, brottfall og hvati til náms hafa verið sérstaklega til skoðunar í vefnámskeiðunum Icelandic Online.

Ráðstefnan verður haldin í raunheimum á næsta ári í Reykjavík.