Nýlega er lokið norrænni ráðstefnu um orðabókagerð og orðabókafræði sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stóð að ásamt norrænu félagi um orðabókafræði, NFL, og norsku málráði. Ráðstefnan var haldin á Hótel KEA á Akureyri dagana 22. til 26. maí.
Ráðstefnuna sóttu rúmlega 100 manns frá öllum Norðurlöndunum. Haldin voru 40 erindi í tveimur samhliða málstofum um fjölbreytileg efni sem varða orðabókagerð og orðabókafræði. Auk þess var boðið upp á kynningu á verkefnum og sýning á orðabókum og ritum um orðabókafræði var haldin í tengslum við ráðstefnuna. Jafnframt var boðið upp á ýmiss konar fræðslu og skemmtun í tengslum við ráðstefnuna.
Eftir setningarræðu Halldóru Jónsdóttur, varaformanns NFL, skemmti Kristján Ingimarsson, bæjarlistamaður á Akureyri, gestum með látbragðsleik. Akureyrarbær bauð ráðstefnugestum til móttöku í Amtsbókasafninu og skipulögð var fræðslu- og menningarferð norður með Eyjafirði. Meðal þess sem skoðað var í ferðinni voru gömlu síldarverksmiðjurnar á Hjalteyri, bruggverksmiðja Kalda á Árskógssandi og byggðasafnið á Dalvík. Ferðinni lauk með fiskisúpuveislu í safnaðarheimilinu á Dalvík og tónleikum Karlakórs Dalvíkur í kirkjunni.
Aðalfundur NFL var að vanda haldinn í tengslum við ráðstefnuna. Þar var kosin ný stjórn félagsins til næstu tveggja ára og verður Halldóra Jónsdóttir formaður þann tíma. Fundurinn samþykkti einnig að næsta ráðstefna verði haldin í Tammerfors (Tampere) í Finnlandi 2009.
Ráðstefnan var styrkt af fjölda íslenskra og norrænna sjóða og fyrirtækja. Styrktaraðilar voru eftirtaldir:
- Nordplus Sprog
- Clara Lachmanns Fond
- Letterstedska foreningen
- Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur
- MS
- JPV-útgáfa
- Glitnir
- Edda - útgáfa
- Akureyrarbær
- Dalvíkurbyggð
- Sparisjóður Svarfdæla
Í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar sátu Ásta Svavarsdóttir, Guðrún Kvaran, Halldóra Jónsdóttir og Jón Hilmar Jónsson.