Nú stendur yfir könnun á þjónustu Árnastofnunar. Smelltu hér til að segja þitt álit. Loka
Skip to main content

Fréttir

Vel heppnuð ráðstefna um orðabókafræði

Nýlega er lokið norrænni ráðstefnu um orðabókagerð og orðabókafræði sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stóð að ásamt norrænu félagi um orðabókafræði, NFL, og norsku málráði. Ráðstefnan var haldin á Hótel KEA á Akureyri dagana 22. til 26. maí.
 


Ráðstefnuna sóttu rúmlega 100 manns frá öllum Norðurlöndunum. Haldin voru 40 erindi í tveimur samhliða málstofum um fjölbreytileg efni sem varða orðabókagerð og orðabókafræði. Auk þess var boðið upp á kynningu á verkefnum og sýning á orðabókum og ritum um orðabókafræði var haldin í tengslum við ráðstefnuna. Jafnframt var boðið upp á ýmiss konar fræðslu og skemmtun í tengslum við ráðstefnuna.

Eftir setningarræðu Halldóru Jónsdóttur, varaformanns NFL, skemmti Kristján Ingimarsson, bæjarlistamaður á Akureyri, gestum með látbragðsleik. Akureyrarbær bauð ráðstefnugestum til móttöku í Amtsbókasafninu og skipulögð var fræðslu- og menningarferð norður með Eyjafirði. Meðal þess sem skoðað var í ferðinni voru gömlu síldarverksmiðjurnar á Hjalteyri, bruggverksmiðja Kalda á Árskógssandi og byggðasafnið á Dalvík. Ferðinni lauk með fiskisúpuveislu í safnaðarheimilinu á Dalvík og tónleikum Karlakórs Dalvíkur í kirkjunni.
 

Aðalfundur NFL var að vanda haldinn í tengslum við ráðstefnuna. Þar var kosin ný stjórn félagsins til næstu tveggja ára og verður Halldóra Jónsdóttir formaður þann tíma. Fundurinn samþykkti einnig að næsta ráðstefna verði haldin í Tammerfors (Tampere) í Finnlandi 2009.

Ráðstefnan var styrkt af fjölda íslenskra og norrænna sjóða og fyrirtækja. Styrktaraðilar voru eftirtaldir:

  • Nordplus Sprog
  • Clara Lachmanns Fond
  • Letterstedska foreningen
  • Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur
  • MS
  • JPV-útgáfa
  • Glitnir
  • Edda - útgáfa
  • Akureyrarbær
  • Dalvíkurbyggð
  • Sparisjóður Svarfdæla

Í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar sátu Ásta Svavarsdóttir, Guðrún Kvaran, Halldóra Jónsdóttir og Jón Hilmar Jónsson.