Skip to main content

Fréttir

Vel heppnað upplestrarkvöld í Mengi

Síðasta miðvikudagskvöld var fyrsta upplestrarkvöldið af þremur, sem ráðgerð eru á vormisseri, haldið í Mengi við Óðinsgötu. Þar sameinuðu krafta sína fræðimenn, skáld og tónlistarmenn.

Kvöldstundin hverfðist um pistlasafnið Konan kemur við sögu sem kom út hjá Árnastofnun í fyrra.

Fræðimenn sem lásu upp eða sögðu frá sínum greinarkornum voru: Margrét Eggertsdóttir og Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessorar á Árnastofnun, emerita Guðrún Kvaran sagði frá Góu og fór með fáheyrt kerlingarapp og Svavar Sigmundsson emeritus sagði frá kerlinga- og ambáttarörnefnum. Þorsteinn frá Hamri skáld las nýja útgáfu af sagnaþætti sínum um konuna í Ambáttarhól, Guðnýju Snorradóttur (um 1771–1852).

Tilfallandi kvartett skipaður úrvalssöngvurum flutti svo tónlist Snorra Sigfúsar Birgissonar við pápiska bæn, Sofðu nú sælin.

Meðfylgjandi myndir Jóhönnu Ólafsdóttur fanga ágætlega stemmninguna sem myndaðist í Mengi, en tvö upplestrarkvöld eru fram undan í marsmánuði. 

Hvert upplestrarkvöld verður einstakt því að þátttakendur eru aldrei hinir sömu.