Skip to main content

Fréttir

Veforðabók fyrir alla

Íslensk-skandinavíska veforðabókin ISLEX var formlega opnuð í gær, á degi íslenskrar tungu. Athöfnin fór fram í Norræna húsinu að viðstöddu margmenni.

Veforðabókin tengir íslenskan orðaforða og málnotkun á nútímalegan hátt við önnur norræn mál og styrkir norrænan málskilning að margvíslegu leyti. Aðgangur að orðabókinni er ókeypis á vefnum.

ISLEX er samstarfsverkefni fjögurra norrænna stofnana í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi þar sem um 50 þúsund íslensk uppflettiorð eru þýdd á dönsku, norsku (bæði bókmál og nýnorsku) og sænsku. Í orðabókinni er einnig fjöldi orðasambanda og notkunardæma auk myndefnis. Íslenskur stofn orðabókinnar er unninn á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Fyrirhugað er að orðabókin verði einnig aðgengileg í gegnum farsíma. Færeyska mun innan skamms bætast í hóp þýðingarmálanna.

Alls hafa um 30 sérfræðingar og þýðendur unnið að verkefninu undanfarin 6 ár. Ritstjóri íslenska hlutans er Þórdís Úlfarsdóttir og verkefnisstjóri er Halldóra Jónsdóttir. 

 

ISLEX

 

Ritstjórn ISLEX.