Skip to main content

Fréttir

Útgáfusamningur við Gyldendal undirritaður í Árnagarði

Í dag, 15. apríl, kl. 11 var margt um manninn í herberginu sem nefnist Málstofa í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Saman voru komnir Johannes Riis forstjóri danska útgáfurisans Gyldendal og Jóhann Sigurðsson hjá Saga forlagi til að undirrita samning um útgáfu á stökum Íslendingasögum.

Viðstaddir voru velgjörðarmenn verkefnisins í gegnum tíðina og sérstakur verndari þess og afmælisbarn Vigdís Finnbogadóttir. 

Íslendingasögurnar voru þýddar á sænsku, norsku og dönsku og gefnar út á Norðurlöndum í heild sinni árið 2104. Nú er komið að því að gefa út stakar sögur á dönsku með formálum og skýringum.

Sami háttur er hafður á nú og þegar Íslendingasögur voru gefnar út á ensku hjá Penguin, þá fyrst sem heild og síðar sem einstakar sögur.

Þessi útgáfa markar tímamót þar sem aðgangur alls almennings á Norðurlöndum mun batna stórum þegar sögurnar taka að skila sér í bókabúðir á næstu misserum.

Johannes Riis, Vigdís Finnbogadóttir og Jóhann Sigurðsson.

 

Johannes Riis og Jóhann Sigurðsson undirrita útgáfusamning um útgáfu á einstökum Íslendingasögum í danskri þýðingu.