Skip to main content

Fréttir

Úrslit í Nýyrðasamkeppni í 5.-7. bekk grunnskóla

Úrslit hafa nú ráðist í Nýyrðakeppni í 5.–7. bekk grunnskóla sem hleypt var af stokkunum á degi íslenskar tungu 16. nóvember sl. Íslensk málnefnd hafði frumkvæði að keppninni en ásamt málnefndinni stóðu Námsgagnastofnun, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Skýrslutæknifélag Íslands að keppninni. Undirbúningshópur sem stóð að keppninni hefur nú lokið við að fara yfir úrlausnir. Alls bárust úrlausnir frá 1763 nemendum í 82 skólum (af 176 á öllu landinu) um allt land. Árið 2007 voru ríflega 13.000 nemendur í 5.–7. bekk í grunnskólum landsins og lætur því nærri að ríflega 13% nemenda hafi skilað úrlausn. Vinna við yfirferð úrlausna reyndist tímafrekari en gert var ráð fyrir í upphafi. Í upphafi var gert ráð fyrir að veita þrenn verðlaun. Undirbúningshópurinn hefur nú ákveðið að veita í staðinn 8 viðurkenningar. Einn nemandi fær myndavél og bók og 7 aðrir fá eina bók hver.

Markmið samkeppninnar var að vekja athygli á því að unnt er að nota íslensk orð þar sem oft eru notuð erlend orð eða slettur. Aðstandendur keppninnar telja að það markmið hafi náðst. Ýmsar góðar tillögur komu fram en fæstar má telja mjög frumlegar enda er ekki unnt að ætlast til þess af þessum aldurshópi.