Skip to main content

Fréttir

„Úr fórum orðabókarmanns“ - sérstakt áskriftarverð

Aldarminning Ásgeirs Blöndals Magnússonar

Í tilefni af því að 2. nóvember nk. verða liðin eitt hundrað ár frá fæðingu Ásgeirs Blöndals Magnússonar orðabókarritstjóra kemur út bók með orðfræðiritgerðum og öðrum málfræðiritgerðum Ásgeirs. Hún nefnist Úr fórum orðabókarmanns og verður um 300 bls. að stærð. Bókin er seld á sérstöku áskriftarverði, 3000 kr., sem gildir til 1. nóv. nk.

Áhugamönnum um íslenskt mál er mikill fengur að þessari bók því að hér er samankomið á einn stað nálega allt það sem Ásgeir birti á sviði íslenskrar málfræði um aldarþriðjungs skeið. Fyrir utan orðfræðiritgerðir og aðrar málfræðiritgerðir hans má nefna að í bókinni er einnig kverið Um hljóðvarp og klofningu og frægur ritdómur hans um Altnordisches etymologisches Wörterbuch eftir Jan de Vries.

Ásgeir Blöndal Magnússon er höfundar Íslenskrar orðsifjabókar sem kom út að honum látnum árið 1989. Hann varð landskunnur fyrir þættina Íslenskt mál sem hann flutti í Ríkisútvarpinu nálega þrjá áratugi samfleytt. Ásgeir Blöndal var gerður að heiðursdoktor við heimspekideild Háskóla Íslands árið 1986 á 75 ára afmæli Háskóla Íslands. Ásgeir lést árið 1987.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur bókina út. Umsjónarmenn útgáfunnar eru Ágústa Þorbergsdóttir, Gunnlaugur Ingólfsson og Jónína Hafsteinsdóttir.

Væntanlegum áskrifendum er vinsamlegast bent á að senda Kára Kaaber, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Neshaga 16, 107 Rvík, upplýsingar um nafn, kennitölu, heimilisfang og greiðslutilhögun á netfangið kari@hi.is. Einnig er hægt að hafa samband í síma 552 8530.

Í tilefni aldarminningar Ásgeirs Blöndals Magnússonar mun orðfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum efna til málþings í minningu hans laugardaginn 7. nóvember

Efnisyfirlit bókarinnar Úr fórum orðabókarmanns:

1.    Inngangur
2.    Orðfræðiritgerðir

Úr fórum Orðabókarinnar
I.  Dyfra; Dysma(st) yfir; Freykja; Greppur; Roppugoð; Trýja.
II. þúa, oggþóa, ofþóa; tasaldi, tasaldalegur.
III. doka, dok; heigull; ýja; þiðrandi, þiðrandalegur; dobía, dubbíó, dibbíó; hosiló; óráðsía.
IV. billa; humbaldi; kelsi; æja, æingur.
V. ábrystir, bresta á, brysta (á), brystingur; elgur, elgja; kjöllur, kjaldur; epja, epjast, epjulegur; hnósi, hnós, hnjósi, hnosi.

Orð af orði
Nokkrar orðskýringar.
kál og kálavéli, vélakind, vélasauður; ríll kk. ‘skríll; geldfé’
Um íslensk askheiti.
gregg, grogg og grögg; þeimur; dósi og dósa.

Orðfræði enn
Í börk viðar.
Um ifjar og iðjar.
Um ögurstund.
Ritdómur um Altnordisches etymologisches Wörterbuch eftir Jan de Vries.

3.    Málfræði
Endurtekningarsagnir með t-viðskeyti í íslenzku.
Um framburðinn rd, gd, fd.
Um geymd íslenzkra orða.
Um hljóðvarp og klofningu.
Um sérhljóðabreytingar á undan samhljóðaklösum með l-i.
Nokkrar minjar um kringdan framburð. yý og ey í íslensku.