Skip to main content

Fréttir

Úr fórum orðabókarmanns komin út. Greinasafn Ásgeirs Blöndal

Út er komin bókin Úr fórum orðabókarmanns, safn greina eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Ásgeir Blöndal starfaði um áratuga skeið við Orðabók Háskólans og varð landskunnur fyrir útvarpsþætti sína um íslenskt mál sem hann annaðist ásamt samstarfsfólki sínu við Orðabókina um árabil. Í orðabókarstarfinu viðaði Ásgeir að sér mikilli þekkingu á íslenskum orðaforða sem bar ríkulegan ávöxt í hinu mikla verki hans Íslenskri orðsifjabók sem kom út árið 1989. Ásgeir miðlaði af þekkingu sinni í ræðu og riti, birti lengri og skemmri pistla um uppruna og skyldleika orða og ritaði greinar um ýmis viðfangsefni í íslenskri málfræði.

Áhugamönnum um íslenskt mál er mikill fengur að þessari bók því að hér er samankomið á einn stað nálega allt það sem Ásgeir birti um íslenskt mál um aldarþriðjungs skeið. Fyrir utan orðfræðiritgerðir og aðrar málfræðiritgerðir hans má nefna að í bókinni er einnig kverið Um hljóðvarp og klofningu og ritdómur hans um Altnordisches etymologisches Wörterbuch eftir Jan de Vries.

 

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur greinasafn Ásgeirs út í minningu þess að haustið 2009 voru liðin hundrað ár frá fæðingu hans.

Umsjónarmenn útgáfunnar eru Ágústa Þorbergsdóttir, Gunnlaugur Ingólfsson og Jónína Hafsteinsdóttir.

Verð 3.600 krónur. Háskólaútgáfan
dreifir ritinu.