Skip to main content

Fréttir

Upptökur af Ísmús í tónlistarsköpun

Tónlistarkonan Kaśka Paluch hefur sent frá sér lagið Draumar þar sem hún tekur hljóðupptöku frá 1968 af vefnum Ísmús og vefur inn í tónlist sína. Á upptökunni segir heimildarmaðurinn Þorbjörg Guðmundsdóttir frá einkennilegum draumi sem hana dreymdi árið 1914. Í draumnum sá hún mörg tungl á blóðrauðum himni og heyrði mikinn gný. Segir Þorbjörg svo frá að presturinn í sveitinni hafi ráðið drauminn og sagt að hann boðaði heimsstyrjöld.

Lagið er hluti af stærra verkefni sem Kaśka stendur fyrir og nefnist Noise from Iceland. Um er að ræða listrænt heimildaverkefni sem miðar að því að skilgreina hver „hljóð Íslands“ eru. Innblásturinn fékk Kaśka þegar hún hitti sjónskertan ferðamann í heimsókn í Raufarhólshelli sem sagði henni að á Íslandi væri ekki aðeins fagurt útsýni heldur einkenndu það einnig sérstök hljóð og áferð.

Á heimasíðu verkefnisins er hægt að hlusta á ýmis hversdagsleg hljóð sem Kaśka hefur tekið upp víða um landið. Þar er einnig að finna fyrrgreing lag Draumar. Það er þó ekki fyrsta lagið þar sem Kaśka nýtir hljóðupptökur úr þjóðfræðisafni Árnastofnunar en fleiri lög er að finna á heimasíðu Noise from Iceland.

Hægt er að hlusta á upprunalegu upptökuna á Ísmús hér.