Skip to main content

Fréttir

Umsóknarfrestur um Snorrastyrki er til 1. nóvember


Umsókn um styrki Snorra Sturlusonar fyrir árið 2009 rennur út 1. nóvember. Styrkirnir eru veittir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum (ekki háskólastúdentum) á sviði mannvísinda til að dveljast á Íslandi í þrjá mánuði hið minnsta í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir miðast að öllu jöfnu við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega til og frá Íslandi og dvalarkostnaði innanlands. Af tveimur jafnhæfum umsækjendum skal að jafnaði sá hljóta styrk sem er frá Austur- og Suður-Evrópu, Asíu, Afríku, Rómönsku Ameríku eða Eyjaálfu.

Stofnunin greiðir götu styrkþega meðan á Íslandsdvöl þeirra stendur og í lok hennar skulu styrkþegar skila stofnuninni greinargerð um hvernig styrknum var varið.

Í umsókn sinni skulu umsækjendur gera stutta en rækilega grein fyrir tilgangi með dvöl á Íslandi, dvalartíma, svo og menntun og störfum.

Umsóknir sendist stofnuninni fyrir 1. nóvember 2008.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Stofa Sigurðar Nordals
Pósthólf 1220
121 Reykjavík