Skip to main content

Fréttir

„Um ævisögu Snorra Sturlusonar“, 28. janúar

Fyrsta rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða á þessu vormisseri verður haldið næstkomandi fimmtudag, 28. janúar, kl. 20 í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3. Þar flytur Óskar Guðmundsson, rithöfundur, fyrirlestur sem hann nefnir Um ævisögu Snorra Sturlusonar. Höfundur lýsir erindi sínu á þessa leið:

Í fyrirlestrinum verður fjallað um tilurð sögunnar, og velt vöngum yfir vinnubrögðum og viðhorfum gagnvart sígildum úrlausnarefnum þess sem skrifar sagnfræðilegan texta: Hvernig á að skrifa aðgengilegan bókartexta fyrir almenning þannig að hann sé fræðilega verjandi? Dansað á gráu svæði.

Brugðið verður upp myndum af nokkrum konum í ævi Snorra. Sumar þeirra hafa birst í sögunni eins og huldukonur, en það má draga upp aðra mynd af þeim. Hafa konur í íslenskri höfðingjastétt á þrettándu öld verið vanmetnar?

Þá verða dregnir fram nokkrir drættir úr sögunni um stjórnmálamanninn Snorra ef tími vinnst til.

Óskar Guðmundsson, rithöfundur í Véum í Borgarfirði, lagði um hríð stund á sagnfræði, þjóðfélagsfræði og bókmenntir við háskóla á Íslandi, Þýskalandi og Danmörku. Hann starfaði í árafjöld sem blaðamaður og ritstjóri á Þjóðviljanum, Helgarpóstinum, Norðurlandi og Þjóðlífi. Í hálfan annan áratug hefur hann unnið sem sagnfræðingur og rithöfundur og skrifað m.a. sjö bækur um miðaldir í bókaflokknum um Aldirnar. Hann er höfundur bókarinnar Snorri, ævisaga Snorra Sturlusonar 1179-1241, sem út kom fyrir síðustu jól.

Allir eru velkomnir.