Skip to main content

Fréttir

Tvö rit frá Stofnun Árna Magnússonar tilnefnd til Menningarverðlauna DV

 

Tvö af ritum þeim sem Stofnun Árna Magnússonar gaf út árið 2015 hafa verið tilnefnd til Menningarverðlauna DV.

Góssið hans Árna í ritstjórn Jóhönnu Katrínar Friðriksdóttur er tilnefnt í flokki fræðirita. Um það segir: „Greinarnar eru tiltölulega stuttar og aðgengilegar og gefa lesendum nýstárlega og fróðlega sýn á handritin. Handritin sem efnislegir gripir og hönnun bókarinnar spila svo fallega saman að tíðindum sætir.“ Sú sem á heiðurinn að hönnun bókarinnar er Sóley Stefánsdóttir. Þá segir jafnframt um ritið í heild: „Góssið hans Árna er ákaflega vel heppnað rit sem færir handritin nær almennum lesendum.“

Margrómað rit Þórunnar Sigurðardóttur, Heiður og huggun - Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld, er einnig tilnefnt í flokki fræðirita. Um það segir: „Heiður og huggun er merkilegt rit um bókmenntagreinar sem voru vinsælar fyrr á öldum. Þórunn hefur með rannsókn sinni á erfi- og harmljóðum á 17. öld unnið brautryðjandastarf í íslenskum bókmenntarannsóknum [...]  Afar vandað fræðirit og þarft innlegg í íslenskar bókmenntarannsóknir.“ 

Hér má sjá nánar fjallað um tilnefningar til Menningarverðlauna DV (myndina af Þórunni Sigurðardóttur tók Þormar Vignir Gunnarsson).

Hér má taka þátt í kosningu um hver verðskuldar að hljóta Menningarverðlaun DV. Hægt er að kjósa til 9. mars.

 

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir og Þórunn Sigurðardóttir.