Skip to main content

Fréttir

Tvö hundruð milljóna króna styrkur

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur móttekið styrk að upphæð um tvö hundruð milljónir íslenskra króna frá danska sjóðnum A.P. Møller og Hustru Chastine Mc-Kinney Møllers Fond til almene Formaal til verkefnisins Archive Arnamagnæana. Markmiðið með verkefninu er að gera stafrænan gagnagrunn um fornbréf og skjöl, fornbréfauppskriftir og bréfabækur úr safni Árna Magnússonar, en það verður unnið í samstarfi við fræðimenn við Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn, Ríkisskjalasafnið í Osló og Þjóðskjalasafn Íslands en öll þessi söfn varðveita hluta af skjala- og fornbréfasafni Árna. Stafrænar ljósmyndir af öllum skjölunum munu fylgja skráningu þeirra og tilvísanir í prentaðar útgáfur þegar um slíkt er að ræða. Þórunn Sigurðardóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, mun stýra verkefninu.

Fornbréfin eru með mikilvægustu heimildum sem finna má um sögu Íslands, Danmerkur og Noregs allt frá miðöldum og fram á átjándu öld enda kemur í flestum tilfellum fram hvar og hvenær þau voru skrifuð. Safnið í heild er um 6000 frumbréf, rúmlega 10.000 uppskriftir af frumbréfum (sem sum hver hafa ekki varðveist) auk fjölda skjala- og bréfabóka. Hér er um að ræða m.a. landamerkjaskrár, kirkjubækur, erfðaskrár, eignaskrár, jarðabréf, kaupmála, rekaskrár og máldaga. Heimildirnar snerta lagasögu, kirkjusögu, söguleg málvísindi, nafnfræði, skriftarfræði, þróun stafsetningar og mörg fleiri svið. Þótt fornbréfin séu alla jafna komin úr opinberri stjórnsýslu dansk-norska konungsríkisins þá innihalda þau einnig upplýsingar um líf og aðstæður venjulegs fólks. Þau veita okkur því innsýn í löngu horfinn heim.

Gamalt, brúnleitt skinnbréf á langsniði. Neðan úr því hanga þrjú innsigli.
Jarðakaupabréf frá 15. öld.
Handrit.is