Skip to main content

Fréttir

Tveir verkefnastyrkir til Árnastofnunar

""

Stjórn Rannsóknasjóðs hefur lokið við úthlutun styrkja til nýrra rannsóknarverkefna fyrir árið 2023. Alls bárust 337 gildar umsóknir og hlutu 74 styrk.

Í hlut Árnastofnunar komu tveir af fjórum verkefnastyrkjum sem úthlutað var til hugvísinda og lista úr Rannsóknasjóði að þessu sinni.

Guðrún Nordal leiðir annað verkefnið ásamt Tarrin Wills og Kate Heslop. Verkefnið heitir Viðtökur dróttkvæða: breytileiki brags og skáldskaparmáls í íslenskum handritum. Markmið þess er að rannsaka hvernig flóknar bragfræðireglur og skáldskaparmál (aðallega kenningar) þróast á löngu tímabili og draga um leið fram viðtökusögu dróttkvæðra vísna. Verkefnið nýtir sér margvíslegar rannsóknaraðferðir, allt frá háþróuðum rafrænum aðferðum til ítarrannsókna á einstökum verkum og handritum og mun afraksturinn m.a. birtast í rafrænum gögnum í opnu aðgengi sem verða grundvöllur frekari rannsókna.

Emily Lethbridge hlaut styrk fyrir verkefnið Kvennaspor: Afhjúpun og ljómun kvenna í sagnalandslagi Íslands. Kvennaspor mun skapa nýja þekkingu um konur og stöðu þeirra í íslensku landslagi með tvenns konar áherslum. Áhersla er lögð annars vegar á frásagnarleg tengsl milli kvenna og íslensks landslags eins og það birtist í miðaldafrásögnum og hins vegar á áður órannsakaðar frásagnir af ferðum erlendra kvenna til Íslands og tengslum við fræga sögustaði.

Sjá nánar um úthlutanir Rannís.