Allt frá árinu 1949 hefur menntamálaráðuneytið veitt erlendum námsmönnum styrki til að stunda nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Árið 2010 tók Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að sér umsýslu með styrkjunum. Þeir eru einkum ætlaðir þeim sem þegar hafa lagt stund á íslensku eða önnur norræn mál í heimalöndum sínum. Styrkþegarnir hafa komið frá um 40 löndum í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu.
Að þessu sinni voru fimm nýir styrkþegar frá Bretlandi, Ítalíu, Japan, Kína og Póllandi sem hófu BA-nám í íslensku sem öðru máli og að auki sjö framhaldsstyrkþegar frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Japan, Póllandi og Þýskalandi.
Þess má geta að í hópi þeirra sem hafa notið styrkja frá upphafi eru margir háskólaprófessorar í norrænum fræðum, íslenskukennarar við erlenda háskóla og mikilvirkir þýðendur íslenskra bókmennta.