Skip to main content

Fréttir

Tímaritið Orð og tunga 27 komið út

Orð og tunga 27

Okkur er ánægja að tilkynna að 27. hefti tímaritsins Orðs og tungu er komið út. Tímaritið er helgað rannsóknum á íslensku máli og hefur um árabil verið mikilvægur vettvangur fyrir fjölbreytt fræðastarf á sviði málvísinda, orðfræði og nafnfræði.

Í þessu hefti má finna fjórar ritrýndar greinar sem fjalla um margvísleg og spennandi viðfangsefni:

  • Katrín Axelsdóttir fjallar um orðið alveg frá ýmsum hliðum. Þetta orð er frekar nýtt í málinu og er yfirleitt notað sem atviksorð en getur einnig komið fyrir sem lýsingarorð og orðræðuögn.
  • Helga Hilmisdóttir skoðar notkun orðsins gaur og gerir grein fyrir því hvernig það er notað á margvíslegan hátt í samtölum unglingsdrengja við tölvuleikjaspil.
  • Ágústa Þorbergsdóttir og Kristín Ingibjörg Hlynsdóttir segja frá áhugaverðum orðum sem hafa verið send inn á Nýyrðavef Árnastofnunar og flokka þau.
  • Emily Lethbridge gerir grein fyrir umfangsmikilli nafnfræðirannsókn þar sem sjónum er beint að örnefnum sem leidd eru af djöflinum og árum hans og finna má um allt land.

Í heftinu er einnig að finna þrjár óritrýndar smágreinar:

  • Í fyrstu greininni fjallar Jón Axel Harðarson um sögnina vökva og tilbrigði hennar í eldri textum.
  • Í þeirri næstu birtir Svavar Sigmundsson yfirlit yfir örnefni í Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal frá því um 1800 og veltir fyrir sér uppruna þeirra.
  • Í síðustu smágreininni ræðir svo Aðalsteinn Hákonarson vafamál við skráningu þriggja örnefna í opinberan örnefnagrunn.

Að lokum er undir liðnum Málfregnir umfjöllun um nýjan vef Íslenskrar orðsifjabókar. 

Aðstandendur ritsins vilja þakka öllum höfundum greina, ritrýnum, ritnefnd og þeim sem unnu við umbrot, prófarkalestur og útgáfu þessa heftis og hvetjum alla sem hafa áhuga á íslenskri tungu til að kynna sér það.

Tuttugasta og sjöunda hefti Orðs og tungu er aðgengilegt öllum í rafrænu formi á vefsíðu tímaritsins. Prentaða útgáfu heftisins má nálgast í bókabúðum inna skamms eða panta hjá Bóksölu stúdenta. Ritstjórar eru Ellert Þór Jóhannsson og Jóhannes B. Sigtryggsson.