Skip to main content

Fréttir

Tímaritið Orð og tunga 24 er komið út rafrænt og í prentaðri útgáfu

Kápa tímaritsins Orð og tunga 2022

Orð og tunga, árlegt tímarit Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er komið út rafrænt og í prentaðri útgáfu. Tímaritið birtir ritrýndar og stuttar óritrýndar greinar sem lúta að máli og málfræði. Að þessu sinni eru umfjöllunarefnin m.a. á sviði orðfræði, orðabókagerðar, málskýrðarfræði, nafnfræði og málræktar.

Í fyrstu grein heftisins fjallar Margrét Jónsdóttir um sagnasambandið sjá sig eftir sem er tilbrigði við hið vel þekkta og algenga sjá eftir þar sem afturbeygðu fornafni hefur verið skotið inn án þess þó að það hafi mikil áhrif á merkinguna. Margrét sýnir m.a. að notkun tilbrigðisins er aðallega tengt við Austurland og Vesturheim. Áhugavert er fyrir áhugamenn um fjölbreytileika íslenskrar tungu að kynna sér rannsókn Margrétar og skoða þau fjölmörgu dæmi sem hún tínir til frá ýmsum tímum.

Einar Freyr Sigurðsson, Finnur Ágúst Ingimundarson og Matthew Whelpton skoða í sinni grein setningafræðilegt samræmi við hulin nafnorð, þ.e. setningar á borð við ég ætla að fá einn kaffi þar sem misræmi er á milli einkunnar og nafnorðs. Eins og höfundar benda á stýrist misræmið af nafnorði sem er látið ósagt, þ.e. bolli. Þeir sem hafa verið að velta fyrir sér þessu áhugaverða misræmi íslenskrar tungu ættu að finna svör í þessari grein.

Ari Páll Kristinsson, Birgitta Guðmundsdóttir, Olga M. Cilia og Sigrún Steingrímsdóttir segja svo frá rannsóknum sínum á skilningi almennings á lagamáli og fjalla um niðurstöður út frá hugmyndum um málskýrð. Málskýrð miðar að því að lesendur finni það sem þeir þurfa í textanum, skilji inntakið og geti nýtt sér upplýsingar. Á undanförnum árum hefur mikil vinna farið fram m.a. á Norðurlöndum við að gera nytjatexta skiljanlegri öllum almenningi og því er grein Ara, Birgittu, Olgu og Sigrúnar kærkomið tækifæri til að velta fyrir sér málskýrð í íslensku samhengi.

Tvær smágreinar eru í heftinu. Sú fyrri er eftir Jóhannes B. Sigtryggsson og fjallar um og-merkið, &, en notkun þess hefur farið vaxandi hér á landi undanfarin ár, m.a. á vefsíðum og í fyrirtækjanöfnum. Svavar Sigmundsson skrifar svo fróðlega grein um örnefnið Stópar í Dufansdal þar sem hann nefnir þá skýringu að nafnið megi ef til vill rekja til keltnesks uppruna. Að lokum geymir heftið umfjöllun um nýjar eða nýuppfærðar vefsíður: orðabókagáttina málið.is, veforðabókina Ordbog over det norrøne prosasprog og stafsetningarhandbókina Íslensk réttritun.

Tuttugasta og fjórða hefti Orðs og tungu er aðgengilegt öllum í rafrænu formi á vefsíðu tímaritsinsPrentaða útgáfu heftisins má nálgast í bókabúðum eða panta hjá Bóksölu stúdenta. Ritstjórar eru Ellert Þór Jóhannsson og Helga Hilmisdóttir.