Skip to main content

Fréttir

Tímamót í sögu íslenskra orðabóka

""

Vinnu við 1. útgáfu Íslenskrar nútímamálsorðabókar er nú lokið en orðabókin hefur verið aðgengileg sem verk í vinnslu frá 2016 og hefur notið mikilla vinsælda. Vinna við hana hófst snemma árs 2014 og ritstjórar og höfundar frá upphafi eru Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir.

Hjálpargagn í daglegu lífi

Orðabókin byggist á ISLEX-verkefninu sem tengir íslensku við önnur norræn mál. Henni er ætlað að vera gott hjálpargagn í daglegu lífi og raunsönn heimild um íslenskan orðaforða frá því um 1950 til dagsins í dag. Einnig er þar að finna ýmis mikilvæg orð úr eldra máli svo og forníslensku sem vænta má að nemendur geti rekist á í skólabókum, t.d. bolöxi, fjörbaugsgarður, hjálmvölur og jarteikn.

Uppflettiorð eru nú orðin 56 þúsund, orðasambönd 10 þúsund og notkunardæmi rúmlega 33 þúsund. Orðabókin er og verður áfram uppfærð reglulega því að vinnu við orðabækur lýkur í sjálfu sér aldrei þar sem þjóðfélagið breytist stöðugt og það kallar á nýjan orðaforða.

Einfaldar skýringar

Mörg orðasambönd geta verið torskilin en þau eru öll skýrð í einföldu máli í orðabókinni, t.d. leggja upp laupana (gefast upp, hætta), fara ekki í grafgötur um/með (efast ekki um / vera viss um), vera eins og snúið roð í hund (vera önugur í viðmóti), þetta er rýrt í roðinu (þetta er lítils virði eða ómerkilegt).

Oft fylgja notkunarleiðbeiningar orðum og t.d. eru orðin senditík, greppitrýni og fylliraftur sögð vera niðrandi. Orð sem merkt eru gamaldags eru t.d. blankskór, forkelast, býtta og dæmi um skáldamálsorð eru drösull (hestur), dreyri (blóð), mögur (sonur) og fold (jörð, land).

Orðabókin er mikið notuð og voru daglegar heimsóknir að jafnaði 4000–5000 í fyrra, flestar um 6000 á dag.

Ritstjórar með áratugalanga reynslu

Ritstjórarnir, Halldóra og Þórdís, hafa starfað lengi við orðabókagerð. Þær hófu að vinna saman árið 2006 við að byggja upp veforðabækur Orðabókar Háskólans sem síðar varð hluti af Árnastofnun. Í samvinnu við háskóla og stofnanir er nú unnið að tvímála orðabókum á milli íslensku og þýsku, pólsku og ensku til viðbótar við norrænu orðabækurnar sex í ISLEX og íslensk-frönsku orðabókina Lexíu.

Til gamans má geta að vinnuheiti orðabókarinnar er KATA í höfuðið á Katrínu Jakobsdóttur sem var menntamálaráðherra 2009–2013 og sýndi orðabókastarfi Árnastofnunar alltaf mikinn áhuga og stuðning.