Ráðherraráð spænsku ríkisstjórnarinnar lýsti því yfir á dögunum að 14. júní yrði framvegis dagur spænska og katalónska táknmálsins. 14. júní varð fyrir valinu því þennan dag árið 1936 var Félag heyrnarlausra á Spáni stofnað (Confederación Estatal de Personas Sordas, CNSE).
Undir lok árs 2013 óskaði Miðstöð stöðlunar spænsks táknmáls (Centro de Normalización Lingüística de la Lengua de Signos Española, CNLSE) eftir upplýsingum um það hvernig Málnefnd um íslenskt táknmál vann að því að fá dag íslenska táknmálsins, 11. febrúar, samþykktan hér á landi. Starfsfólk CNLSE þakkaði starfsfólki Samskiptamiðstöðvar og Félags heyrnarlausra fyrir veittar upplýsingar og aðstoð við að koma málinu í þennan farveg.
Ljóst er að staða íslensks táknmáls og dagur íslenska táknmálsins er öðrum þjóðum hvatning og atbeini í baráttunni fyrir viðurkenningu táknmála heimsins.
Málnefnd um íslenskt táknmál óskar Spánverjum til hamingju með áfangann.
Skrifstofa málnefndar um íslenskt táknmál er í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.