Að undanförnu hafa fræðimennirnir Annette Lassen og Gísli Sigurðsson heimsótt nemendur og kennara í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Tilgangur heimsóknanna hefur verið að segja frá efni Þrymskviðu sem varðveitt er í Konungsbók eddukvæða.
Bókin, sem er meðal helstu gersema íslenskrar miðaldamenningar, hefur ekki að geyma myndlýsingar. Upp spratt sú hugmynd að gefa ungum teiknurum tækifæri til að myndskreyta hina mögnuðu frásögn af Þór og Loka í Jötunheimum sem lesa má um í kvæðinu. Kennararnir sem taka þátt í verkefninu fyrir hönd Myndlistaskólans eru Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Guðbrandur Magnússon og Dagur Pétursson. Afrakstur samstarfsins verður sýnilegur á vef stofnunarinnar í kringum afmælishátíðina 21. apríl.