Skip to main content

Fréttir

Þrengt að íslenskri tungu

„Málnotkun í íslensku háskólasamfélagi hefur breyst á undanförnum árum og sú þróun hefur því miður oft orðið á kostnað íslenskrar tungu“ segir í ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2010.

Í ályktuninni segir jafnframt að sjálfsagt sé að nota fleiri tungumál en íslensku í háskólasamfélaginu en ,,skylt er þó að tryggja að staða íslenskrar tungu sé sterk í háskólasamfélaginu á Íslandi; þar má hún ekki verða hornreka heldur á hún þvert á móti að eflast þar og dafna."

Varað er við þessari þróun þar sem verulega muni verða þrengt að íslenskri tungu og m.a. lagt til að íslenska verði opinbert mál háskóla á Íslandi og að meginreglan verði sú að vinnumálið sé íslenska, jafnt í kennslu (fyrirlestrum, umræðum, verkefnum og ritgerðum), rannsóknum og stjórnsýslu.