Dr. Þórunn Sigurðardóttir hefur verið ráðin rannsóknarlektor á handritasviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Gert er ráð fyrir að hún hefji störf í byrjun september.
Þórunn hefur starfað sjálfstætt undanfarin ár og hefur um árabil starfað við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við rafræna skráningu handrita og við útgáfustörf. Áður starfaði hún m.a. hjá ýmsum stofnunum Háskóla Íslands, The Fiske Icelandic Collection hjá Cornell University, við kennslu og rannsóknir.
Doktorsrit Þórunnar Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld fékk einróma lof og góðar viðtökur jafnt í fræðasamfélaginu sem meðal almennra lesenda og hlaut bæði Fjöruverðlaunin og Menningarverðlaun DV árið 2016.
Þórunn gegnir formennsku í örnefnanefnd árin 2015-2019.
Stofnunin og starfsfólk hennar býður Þórunni velkomna til starfa og fagnar áframhaldandi samstarfi.