Skip to main content

Fréttir

Sumarskólinn í handritafræðum er vaxandi skóli

Sumarskóli í handritafræðum 2019

Alþjóðlegur sumarskóli í handritafræðum var haldinn í Kaupmannahöfn dagana 12.–23. ágúst sl. Þátttakendur voru 52 og komu frá 15 löndum. Að venju var boðið upp á kennslu í þremur hópum, þ.e. fyrir byrjendur, lengra komna og í svokölluðum Master class. Námskeiðið er skipulagt þannig að nemendur fá bæði tækifæri til að hlýða á fyrirlestra og vinna verkefni sem tengjast handritum undir leiðsögn sérfræðinga. Boðið var upp á nokkra fyrirlestra sem ætlaðir voru öllum hópnum, t.d. flutti Matthew Collins fyrirlestur um skinnhandrit, Seán Vrieland fjallaði um færeysk handrit og Michael Lerche Nielsen fræddi nemendur um rúnir. Dagsferð til Lundar í Svíþjóð, sem allir nemendur tóku þátt í, var hluti af námskeiðinu. Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Matthew James Driscoll, prófessor við háskólann í Kaupmannahöfn, sáu um að leiðbeina Master class-hópnum sem fékk það verkefni að koma með tillögu að útgáfu á Andra sögu jarls og bera hana jafnframt saman við tvennar rímur út frá sama efni.

Þetta er í 16. sinn sem boðið var upp á sumarskóla í handritafræðum. Námskeiðið er samstarfsverkefni Institut for nordiske studier og sprogvidenskab við Kaupmannahafnarháskóla og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Kennarar voru 19 talsins, flestir frá Árnastofnun í Kaupmannahöfn en frá Íslandi komu Guðrún Þórhallsdóttir, Haraldur Bernharðsson, Þórunn Sigurðardóttir og Margrét Eggertsdóttir. Námskeiðið tókst mjög vel og voru kennarar og nemendur almennt mjög ánægðir eins og fram kom í kennslukönnun sem gerð var í lok námskeiðsins.

Nánari upplýsingar á ensku má lesa hér.