Alþjóðlegur sumarskóli í handritafræðum var haldinn í nítjánda sinn 6.–15. ágúst 2024. Skólann sóttu að þessu sinni 54 nemendur frá 17 löndum. 21 kennari sá um kennslu. Fjallað var um fjölmargar hliðar handritafræða, svo sem um gerð handrita, pappír, blek, lýsingar og litarefni; ólíkar skriftartegundir, stafsetningu, bönd og styttingar; söfnun, ljósmyndun og skráningu handrita; textaútgáfur og orðabókarvinnu. Nemendur fengu tækifæri bæði til að skoða og vinna með handrit og að skrifa á kálfskinn með fjaðrapenna og bleki.
Sumarskólinn er samstarfsverkefni Árnastofnunar, Háskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Kaupmannahafnarháskóla (Den Arnamagnæanske Samling). Hann er haldinn árlega, til skiptis í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Að þessu sinni fór kennslan fram í Eddu, Veröld – húsi Vigdísar og í Þjóðarbókhlöðunni. Næsti sumarskóli verður haldinn að ári í Kaupmannahöfn.
Sjá myndir frá sumarskólanum.