Síðasta vetrardag árið 1971 komu fyrstu tvö handritin aftur heim til Íslands frá Danmörku, eftir lausn handritamálsins.
Þetta voru þjóðargersemarnar Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða sem hafa síðan verið varðveittar á Árnastofnun. Þessum handritum, og átta öðrum merkisbókum, má nú fletta í stafrænni handritahirslu stofnunarinnar sem opnuð verður á sumardaginn fyrsta.
Með Hirslunni opnast almenningi nýr aðgangur að þessum mörg hundruð ára gömlu bókum. Þær geyma ekki bara frægar bókmenntir okkar heldur eru líka listaverk í sjálfum sér, skrifaðar af þaulvönum skrifurum og myndlýstar af listamönnum sem flestir eru nú óþekktir.
Hverju handriti fylgir stuttur kynningartexti en gestir Hirslunnar eru hvattir til að fletta bókunum eins og þá lystir og spreyta sig á handritalestri.
Á næsta ári verða 50 ár liðin frá heimkomu fyrstu handritanna og verður þess minnst með hátíðahöldum um sumarmál 2021.
Sjá handritahirsluna hér.
Hér að neðan má sjá kynningu á handritunum.