Smíði og notkun súðbyrtra báta, súðbyrðinga, er komin á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf. Öll Norðurlöndin stóðu saman að tilnefningunni. Vitafélagið – íslensk strandmenning hafði veg og vanda að undirbúningi tilnefningarinnar fyrir hönd Íslands í samstarfi við strandmenningarfélög á Norðurlöndunum.
Smíði súðbyrðings byggir á handverkshefð þar sem neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar fyrir neðan. Í upphafi voru borðin saumuð saman áður en trénaglar og síðar járn- og koparnaglar komu til sögunnar. Þessi mikilvæga menningararfleifð og handverkshefð gerði mönnum kleift að stunda sjósókn, veiðar, landbúnað og flutninga.
Vefurinn lifandihefdir.is þjónar hlutverki yfirlitsskrár yfir óáþreifanlegan menningararf á Íslandi. Vefurinn er í umsjón Árnastofnunar og þar má lesa nánar um súðbyrðinga. Eins hefur UNESCO birt myndband um bátana og handverkið.
Samningur UNESCO frá árinu 2003 um varðveislu menningarerfða fjallar um varðveislu á hefðum, siðum, munnlegri geymd, handverkskunnáttu o.fl. sem oftast er talað um sem óáþreifanlegan menningararf. Samningnum er ætlað að vekja athygli á og auka vitund um mikilvægi þessara þátta og stuðla að varðveislu þannig að þekkingin lifi áfram og sé miðlað frá kynslóð til kynslóðar. Samningurinn öðlaðist gildi árið 2005 og hefur Ísland átt aðild að samningnum frá upphafi.
Skrá UNESCO yfir dæmigerðar menningarerfðir mannkyns er afar fjölbreytt en þar eru nú 597 skráningar sem gefa dæmi um fjölbreytta menningararfleifð mannkyns.