Lengi hefur verið beðið eftir nýrri íslensk-pólskri veforðabók handa þeim stóra hópi Pólverja sem sest hefur að hér á landi undanfarna áratugi. Einkum hefur vantað orðabók sem tekur mið af þörfum nemenda á öllum skólastigum. Það er því mikið fagnaðarefni að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafi nú veitt Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum styrk upp á 15 milljónir króna til að vinna að íslensk-pólskri veforðabók á grundvelli ISLEX-veforðabókanna.
Undirbúningur verksins hófst 2019 þegar styrkur fékkst úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur. Styrkurinn nú hleypir hins vegar nýju lífi í verkefnið og nýtist til að ráða pólskumælandi þýðendur ásamt tæknilegri vinnu. Þórdís Úlfarsdóttir er aðalritstjóri og Halldóra Jónsdóttir er verkefnisstjóri og ritstjóri pólska hlutans er Stanislaw Bartoszek, norrænufræðingur og orðabókarhöfundur. Gert er ráð fyrir að orðabókin verði opnuð sem verk í vinnslu á degi íslenskrar tungu að ári.
Sjá nánar frétt á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.