Skip to main content

Fréttir

Styrkur til norrænna miðaldafræða

Alþjóðlegt meistaranám í norrænum miðaldafræðum - Nordic Masters Programme in Viking and Medieval Norse Studies hefst við Háskóla Íslands haustið 2012. Námið er á vegum Háskólans í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskólann í Ósló, Háskólann í Árósum og Árnastofnun við Háskólann í Kaupmannahöfn.

Fyrstu nemendur hefja nám haustið 2012 og er stefnt að því að innrita 25 til 35 nemendur á hverju ári. Allt fyrsta árið í meistaranáminu fer fram við Háskóla Íslands en á þriðja misseri stunda nemendur nám við einn af samstarfsháskólunum. Lokaverkefni skrifa þeir við einn ofangreindra háskóla að eigin vali. Námið fer fram á ensku og er opið fyrir nemendur alls staðar að úr heiminum. Um er að ræða þverfaglegt nám þar sem koma saman sagnfræðingar, bókmenntafræðingar, málfræðingar, fornleifafræðingar, þjóðfræðingar og trúarbragðafræðingar við fimm ólíkar stofnanir.

Norræna ráðherranefndin styrkir námið upp á eina miljón danskra króna. Alls bárust nefndinni 34 umsóknir um styrki. Þær voru allar metnar af alþjóðlegu fagráði og er styrkurinn til Íslands einn af sex sem voru veittir að þessu sinni. Áður hefur ráðherranefndin veitt tíu styrki til norræns meistaranáms en þetta er fyrsti styrkurinn sem fer til verkefnis sem er stjórnað frá Íslandi.

Torfi H. Tulinius, Háskóla Íslands, og Gísli Sigurðsson, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, leiddu umsóknarskrifin í nánu samstarfi við Hugvísindastofnun Háskóla Íslands.