Rannsóknarverkefnið „Íslenskur námsorðaforði og stigvaxandi fjölbreytni íslenskrar tungu: Námsefni og kennsluhættir með fjöltyngdum grunnskólanemendum“ hlaut styrk frá Íslenskusjóði Háskóla Íslands.
Verkefnið byggist á samstarfi Menntavísindasviðs og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Menntamálastofnunar. Það felur í sér ritun tuttugu gæðatexta fyrir fjöltyngda grunnskólanemendur og mótun kennsluleiðbeininga um notkun þeirra í skólastarfi. Unnið verður með stigvaxandi fjölbreytni í orðaforða, lesskilningi, umræðu- og ritunarfærni sem saman leggja mikilvægan grunn að námsframvindu nemenda í íslenskum skólum. Verkefnastjóri er Sigríður Ólafsdóttir dósent á Menntavísindasviði HÍ.
Nánar má lesa um Íslenskusjóðinn og styrkinn á vef Háskóla Íslands.